Sundhópurinn Hafmeyjurnar lagði af stað frá Dover í Bretlandi klukkan fimm í gærmorgun á staðartíma. Sjósundkapparnir, sem allar sjö eru íslenskar konur, skiptust á að synda og komu í land við strönd Frakklands í gærkvöldi eftir sautján klukkustunda sund.
Erna Héðinsdóttir, meðlimur Hafmeyjanna, segir sundið hafa gengið ótrúlega vel. Tilfinningin þegar sundinu var lokið hafi verið æðisleg.
„Ótrúlega margt sem var með okkur og jafnvel umfram það sem við vonuðum og bjuggumst við. Þetta var bara mögnuð reynsla og magnaður hópur,“ segir Erna.

Bongó um miðjan dag
Engin úr hópnum hafði synt yfir Ermarsundið áður, en meðferðis í bátnum sem fylgdi þeim var Sigrún Geirsdóttir sem er eina íslenska konan sem synt hefur ein yfir Ermarsundið. Hún var þeim mikill liðsstyrkur. Þá voru veðurguðirnir með þeim í liði.
„Við höfðum væntingar og við fengum meira. Við höfðum væntingar um gott veður, við fengum bongó um miðjan daginn. Það var rennisléttur sjór út á miðju Ermarsundi, sól og við sátum bara á bikiníum uppi á dekki í sólbaði. Það var svo margt sem fór langt umfram væntingarnar okkar,“ segir Erna.

Var nær dauða en lífi fyrir tuttugu árum
Birna Björnsdóttir, ein meðlima hópsins, er nýorðin fimmtug og var sundið þreytt í tilefni af því. Fyrir tuttugu árum slasaðist Birna alvarlega í bílslysi og var hún þá nær dauða en lífi. Þrátt fyrir það áfall tókst henni að vinna upp styrk síðustu ár og loks synda yfir Ermarsundið.
„Í dag erum við bara aðeins að ná okkur og ætlum saman út að borða í kvöld og leyfa okkur aðeins að fagna,“ segir Erna.
