Haukur vill að tekið verði til athugunar hvort Þórarinn Ingi hafi með þátttöku sinni í þinglegri meðferð í vor sem leið, en um er að ræða 393. mál á 154. löggjafarþingi Íslendinga, sem varð að lögu, gerst brotlegur við Siðareglur fyrir þingmenn.
„Telja verður að háttalag hans ógni tiltrú almennings og trausti á Alþingi, enda er það í andstöðu við siðferðisviðmið almennings í nútímanum að alþingismaður noti stöðu sína sér til framdráttar.
Frá víðara sjónarhorni má líta svo á að Þórarinn Ingi hafi ekki axlað ábyrgð sína sem þingmaður og niðurlægt þingræðið.“
Samþykkt búvörulaganna reyndist afar umdeilt mál ekki þá síst sá angi þeirra sem varða það að kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum. Haukur var meðal fjölmargra sem tók til máls en hann er sérfróður um stjórnsýslulega málsmeðferð frumvarpa á Alþingi og hefur tekið saman bók um það fyrirbæri.
Að mati Hauks ber forsætisnefnd að senda erindi hans til siðanefndar Alþingis til rannsóknar og álitsgjafar. Þá vekur Haukur athygli á því að Þórarinn Ingi hafi verið potturinn og pannan í breytingum sem gerðar voru á lögum: „Þátttaka hans var markviss og meðvituð og hann knúði öðrum fremur breytingartillöguna í gegn,“ segir meðal annars í erindi Hauks.
Þar kemur jafnframt fram að Þórarinn Ingi hafi tvímælalaust staðið frammi fyrir umboðsvanda, freistnivanda- og ekki síst hagsmunaárekstrum, þar sem hans eigin hagsmunir, eignarhlutur hans í afurðastöð og hagsmunir atvinnugreinar sem hann styður og telur sig kannski að einhverju leyti vera fulltrúi fyrir, stangast á við almannahagsmuni. Þessara hagsmuna er í engu getið í hagsmunaskráningu þingsins.