Undir innviðaráðherra heyra húsnæðis- og skipulagsmál, sveitarstjórna- og byggðamál og samgöngumál. Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra sagði í fjárlagaumræðunni á Alþingi í dag að áætlað væri að 128 milljarðar fari til þessara málaflokka á næsta ári, sem væri tæplega 14 prósenta aukning frá fjárlögum þessa árs.

Innviðaráðherra sagði húsnæðismálin vera í brennidepli og gera þyrfti betur í uppbyggingu þess og huga þá að fólki fremur en verktökum. Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins rak hins vegar augun í setningu í nýundirrituðu samkomulagi stjórnvalda og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um Betri samgöngur, sem honum fannst undarleg.

„Ári fyrir akstur á borgarlínuleiðum munu aðilar ganga til samninga um aukið hlutfall ríkisins til rekstursins,“ las þingmaðurinn upp úr samkomulaginu sem undirritað var hinn 22. ágúst síðast liðinn. upprunalega hefði aftur á móti ekki verið gert ráð fyrir aðkomu ríkisins að rekstri borgarlínu.
„Mig langar að biðja hæstvirtan innviðaráðherra að fara aðeins yfir þetta með okkur hér í þinginu. Hver hugsunin á bakvið þetta er, eru einhver samningsmarkmið sem liggja fyrir og hvernig þetta á allt saman að atvikast,“ sagði Bergþór.

Innviðaráðherra sagði það eðli máls samkvæmt, að þegar kæmi að enda samningsgerðar þyrfti að stilla af orðalag og væntingar.
„Sveitarfélögin vildu meira. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Ríkið var með sín markmið annars staðar en sveitarfélögin. Samningsmarkmiðin eru bættar samgöngur fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það eru sameiginleg markmið ríkis og sveitarfélaga. En við leggjum áherslu á það þarna að samtalið sé opið. Að við séum reiðubúin til að halda þessu samtali áfram,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.