Ísraelskir fjölmiðlar segja að árásin hafi beinst að Ibrahim Aqil, einum af æðstu leiðtogum samtakanna, en hann er sagður hafa leitt hernaðararm Hezbollah eftir að fyrrverandi leiðtogi þessa arms var ráðinn af dögum í júlí.
Aqil var einnig eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir aðkomu hans að árás á sendiráð Bandaríkjanna í Beirút og mannskæðri sprengjuárás í bragga bandarískra landgönguliða í Beirút en báðar árásirnar voru gerðar árið 1983.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa heitið sjö milljónum dala til höfuðs hans. Það samsvarar tæpum milljarði króna.
AFP fréttaveitan hefur eftir heimildarmanni sem tengist Hezbollah að Aqil hafi fallið. Það hefur einnig verið staðfest af heimildarmönnum Reuters, sem segja Aqil hafa verið á fundi með meðlimum hinna svokölluðu Radwan-sveitum, sem eru nokkurs konar sérsveitir Hezbollah.
Aqil has been wanted by the United States for his role in the 1983 bombing of a US Marines barracks in Beirut, as well as directing the taking of American and German hostages in Lebanon in the 1980s.
— Emanuel (Mannie) Fabian (@manniefabian) September 20, 2024
There was a $7 million bounty on him. pic.twitter.com/7T0KMJPNUB
Gífurlega spenna er nú á landamærum Ísraels og Líbanon, þar sem árásum á báða bóga hefur farið fjölgandi. Hezbollah hófu árásir með eldflaugum og drónum upprunalega þann 8. október og hafa Ísraelar gert fjölmargar loft- og stórskotaliðsárásir yfir landamærin.
Spennan náði svo nýjum hæðum á dögunum þegar þúsundir símboða í eigu vígamanna Hezbollah sprungu í loft upp. Ísraelar hófu svo í gær umfangsmiklar árásir í suðurhluta Líbanon.
Sjá einnig: Hafa séð Hezbollah fyrir símboðum í tvö ár
Ráðherrar og herforingjar í Ísrael hafa á undanförnum dögum staðið í hálfopinberu rifrildi um það hvort gera eigi innrás í Líbanon og reka vígamenn Hezbollah frá landamærunum til að stöðva áðurnefndar árásir.
Um sjötíu þúsund manns eru sögð hafa þurft að yfirgefa heimili sín í norðanverðu Ísrael frá því árásirnar hófust.
Ekki er ljóst hvort af innrásinni verður en ráðamenn í Ísrael lýstu átökunum sem eiga sér stað núna sem „nýjum fasa“ í stríðinu.
Hezbollah hefur svaraði loftárásinni í dag með umfangsmikilli eldflaugaárás á norðanvert Ísrael.