Víkingur fékk færi til að komast yfir í fyrri hálfleik en markvörður heimamanna greip vel inn í oftar en einu sinni. Liðið fékk mark á sig snemma í seinni hálfleik og svo missti liðið dampinn í lokin er það fékk á sig þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum.
„Mér fannst við spila fullkominn fyrri hálfleik. Þegar við vorum ekki með boltann vörðumst við frábærlega, við bjuggum til færi og töluðum um það í hálfleik að fara ekki út í seinni og klúðra þessu. Við gerðum allt í lagi en var refsað fyrir mistök. Á svona stóru sviði gerist það og við vitum betur næst,“ segir Gísli.
„Ég get ekki útskýrt þetta. Það er ein sekúnda sem við slökkvum á okkur og þá gerist þetta. Þetta er ótrúlegt í svona leikjum, þá þarf maður að vera on í 90 mínútur. Við spiluðum mjög vel og þess vegna er svo ótrúlega svekkjandi að þetta hafi farið 4-0,“ segir Danijel.
Hinn tvítugi Gísli naut sín samt sem áður stóra hluta leiksins en hann var án efa að spila sinn stærsta leik á ferlinum. Svekkelsið stendur aftur á móti upp úr.
„Þetta var alveg geðveikt, ég veit ekki hvað það voru margir á vellinum en það voru helvíti mikil læti. Það kom alvöru meðbyr með þeim þegar þeir gerðu eitthvað gott en við þögguðum niður í þeim í fyrri hálfleiknum. Enn og aftur er þetta bara svo svekkjandi,“ segir Gísli.