Í Kompás sem sýndur var á mánudag var fjallað um sprengingu í ásókn þyngdarstjórnunarlyfja á borð við Ozempic og Wegovy. Rætt var við lækna um þeirra skoðun á lyfjunum og konu sem hefur sprautað sig með þeim í von um að léttast.
Í þættinum kom fram að ein eins milligramma sprauta af Wegovy kosti viðmælandann 28 þúsund krónur.
„Og vitandi það að þetta er lyf sem ég mun að öllum líkindum mun þurfa að vera á það sem eftir er,“ segir Sara Hlín Hilmarsdóttir sem hefur notað Wegovy.
Lyfin eru aldrei hugsuð sem skammtímanotkun og segir læknir um ævilanga meðferð að ræða. Sara mun því þurfa að greiða 336.000 á ári fyrir lyfið. Verði hún á því næstu tíu árin nemur kostnaðurinn 3,3 milljónum og eftir fjörutíu ára notkun verður hún búin að eyða 13 milljónum í efnin.
Afmarkaður hópur fólks fær lyfið niðurgreitt og eru skilyrðin ströng. Beiðni um niðurgreiðslu verður að koma frá lækni og einungis þeir sem eru með yfir 45 í BMI þyngdarstuðli og með lífsógnandi sjúkdóma tengda þyngdinni fá lyfin niðurgreidd. Og þeir sem eru með 35 í BMI þyngdarstuðli og með mjög alvarlegan lífsógnandi sjúkdóm.
Vonast til að fleiri fái niðurgreiðslu
Sara uppfyllir hvorugt skilyrðið en vonast til þess að stjórnvöld ákveði að niðurgreiða lyfið í frekari mæli.
„Ég trúi því ekki að ég þurfi að borga 30 þúsund á mánuði þar sem eftir er, miða við þróunina þá hef ég fulla trú á að við munum fá þetta niðurgreitt en eins og staðan er í dag fæ ég þetta ekki niðurgreitt.“
Á stundum ekki fyrir næstu sprautu
Það hafi gerst að hún geti ekki keypt mánaðarskammtinn vegna kostnaðar.
„Já það hefur gerst. Það var um miðjan mánuð og ég missti þá úr tvo skammta og mér leið þá soldið eins og ég væri smá á byrjunarreit aftur, mér fannst ég þurfa að byggja upp þolið aftur, þrjátíu þúsund er mjög mikið.“