Skýrsluhöfundar benda á að áhrif loftslagsbreytinga af manna völdum hafi mun verri áhrif á vissum stöðum á jörðinni en á öðrum. Þannig var ástandið í ár verst í Karíbahafinu og í eyríkjum Kyrrahafsins. Á sumum stöðum voru hættulega heitir dagar, sem hefðu ekki komið án loftslagsbreytinga, að mati vísindamannanna, hundrað og fimmtíu yfir árið, eða næstum helmingur alls ársins.
Og hjá næstum hálfri heimsbyggðinni var um tvo mánuði hið minnsta að ræða, þar sem hitinn fór yfir heilsuverndarmörk. Og jafnvel í löndum þar sem áhrif breytinganna hafa verið einna minnst, eins og í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu, fjölgaði hættulega heitum dögum þó um þrjár vikur að meðaltali.
Verri hitabylgjur eru banvænustu afleiðingar loftslagsbreytinganna og algjört lykilatriði samkvæmt skýrsluhöfundum að hætta að brenna kol, olíu og gas til að koma í veg fyrir að afleiðingarnar verði enn verri.

2024 heitasta árið hingað til
Fram kemur í skýrslunni að árið í ár sé það heitasta hingað til og að aldrei hafi meiri koltvísýringur verið losaður í andrúmsloftið.
Skýrsluhöfundar kalla eftir því að andlát í hitabylgjum séu skráð í rauntíma og segja fjöldi látinna stórlega vanmetinn vegna skorts á vöktun. Mögulegt sé að milljónir hafi látist af völdum hitabreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga en að það sé ekki skráð neins staðar.
Haft er eftir einum skýrsluhöfundi, doktor Friederike Otto, að áhrifin hafi aldrei verið meiri vegna bruna jarðefnaeldsneytis og nefndi sem dæmi flóðin á Spáni í haust, fellibylji í Bandaríkjunum, þurrka í Amazon skógi og flóð í Afríku í sumar.

„Við vitum nákvæmlega hvað við þurfum að gera til að koma í veg fyrir að þetta verði enn verra: að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti.“
Fjallað er nánar um rannsóknina á vef Guardian.