„Stærsta verkefnið var á Vatnsskarði,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við fréttastofu. Hann segir björgunarsveitir hafa aðstoðað farþega um tuttugu bíla sem sátu fastir á Vatnsskarði, en um tíuleytið hafi að mestu leyti verið búið að hreinsa það svæði.
Holtavörðuheiði var lokað fyrr í kvöld vegna veðurs. Ökumenn hafi lent í vandræðum á Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi og í Víðidal í Húnaþingi vestra og björgunarsveitir verið kallaðar út til aðstoðar.
Beint úr útkalli í flugeldasölu
Þá segir Jón Þór að björgunarsveitarmenn hafi aðstoðað vegfarendur sem sátu fastir á Hofsósi og Blönduhlíð.
„Þannig að þetta hafa verið verkefni frá Holtavörðuheiði að Blönduhlíð og alveg yfir í Skagafjörð.“
Og standa björgunarsveitirnar áfram vaktina?
„Ja, nú er flugeldasalan byrjuð þannig að menn fara bara aftur í búðina,“ segir Jón Þór.
Sem fyrr bendir hann vegfarendum á að fylgjast með færð og veðri. Hann mælir með vef Safetravel.is til þess.