„Ég hringdi í þennan góða mann sem amma, amman sem ég er, ekki alveg orðin meðvituð að ég væri orðin ráðherra,“ sagði Inga að loknum ríkisstjórnarfundi í dag um símtal hennar til skólameistara Borgarholtsskóla vegna týnds skópars barnabarns hennar.
Hún segir símtalið hafa átt sér stað í snemma í janúar og að staða hennar hafi breyst mikið síðan þá. Hún segist ætla að reyna að halda í „sem mest af Ingu“ sem ráðherra en að hún hefði „átt að telja upp á 86“ áður en hún hringdi símtalið í skólameistarann. Það hafi getað valdið misskilningi.
„Þetta var líka í góðri trú.“
Inga segir það orðum ofaukið að hún hafi nefnt það að hún hefði ítök í lögreglunni.
„Ég er alltaf ákveðin en í þessu tilfelli hefði ég átt að telja upp á 86 áður en amman tók upp tólið. Ég biðst bara afsökunar á því að hafa tekið þessa hvatvísu ákvörðun.“
Hún segir hvatvísina hafa reynst henni vel hingað til og komið henni þangað sem hún er í dag en hún muni vanda sig betur.
„…og finnst miður að hafa misstigið mig svona snemma í ferlinu.“