Magnea er ósátt við þá orðræðu sem hefur verið viðhöfð af kollegum hennar í borgarstjórn um atburðarásina sem fór í hönd í síðustu viku, svo mjög að hún fann sig knúna til að skrifa grein á Vísi um upplifun sína og til að rétta hlut Einars og annarra borgarfulltrúa Framsóknar.
Hún segir að sérstaklega fari fyrir brjóstið á sér að málinu sé stillt upp út frá kyni og vísar í ummæli sem oddviti Pírata lét falla í viðtali hjá RÚV í gær:
„Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen og skalla öllu í uppnám.“
„Ég met þetta þannig að verið sé að búa til einhverjar „narratívur“ en mér fannst þessi ummæli kannski ganga heldur of langt og það að stilla þessu upp þannig að þetta snúist um kyn þess einstaklings sem tekur þessa ákvörðun fyrir hönd hópsins eða að segja að það hafi verið gert í geðþótta án samtals tel ég vera ómálefnalegt og í raun og veru er verið að smætta aðkomu okkar kvenna í Framsókn að þessari ákvörðun og í starfi almennt fyrir borgarbúa. Staðan er bara sú að við vildum taka stærri skref fyrir borgarbúa og við mátum stöðuna þannig að við værum ekki að ná árangri í þessum meirihluta.“
Það hafi verið þeirra upplifun í dágóðan tíma að Framsókn myndi líklegast ekki ná þeim árangri sem flokkurinn var kosinn út á í þáverandi meirihlutasamstarfi.

„Við vildum ná meiri árangri, við vorum kosin til að ná fram breytingum fyrir borgarbúa, við vildum ná auknum árangri í dagvistunarmálum til dæmis með vinnustaðaleikskólum og við vildum taka betur til í rekstri borgarinnar og við vildum stíga stærri skref í uppbyggingu hjá borginni. Það er ekki nóg bara að þétta byggð heldur þurfum við líka að ryðja nýtt land og byggja meira og hraðar fyrir borgarbúa.“