Upp­gjörið: Grinda­vík - KR 86-83 | Tíma­bilinu lokið hjá KR en Grinda­vík mætir Val

Smári Jökull Jónsson skrifar
KR komst ekki í úrslitakeppnina. 
KR komst ekki í úrslitakeppnina.  Vísir/Anton Brink

Grindavík vann 86-83 gegn KR í lokaumferð Bónus deildar karla. Grindvíkingar enda í fimmta sæti deildarinnar og mæta Val í úrslitakeppninni. Tímabilinu er hins vegar lokið hjá KR, sem var að vonast til að Þór myndi vinna Keflavík.

KR þurfti sigur í leiknum í dag til að tryggja sig inn í úrslitakeppnina á meðan Grindavík var í öllu þægilegri stöðu. Það sást í upphafi leiks því KR hóf leikinn betur og sóknarleikur Grindvíkinga var ekki upp á marga fiska í upphafi leiks. 

Á sama tíma var KR að hitta frábærlega fyrir utan þriggja stiga línuna og byggði upp smá forskot sem mest varð ellefu stig í fyrri hálfleik. Þórir Þorbjarnarson lauk einmitt fyrsta leikhluta með frábæru þriggja stiga skoti og kom þá KR í 24-18.

Þriggja stiga skotin héldu áfram að fara niður hjá KR í öðrum leikhluta og á tímabili var liðið með 70% nýtingu fyrir utan teig. Nimrad Hilliard og Jeremy Pargo voru báðir að spila vel sóknarlega hjá sínum liðum og sölluðu niður stigum. KR hélt frumkvæðinu en Grindavík náði að minnka muninn niður í fjögur stig fyrir lok fyrri hálfleiks. Í hálfleik var staðan 50-46 fyrir gestina.

Grindavík byrjaði síðari hálfleikinn vel og náði meira að segja forystunni í stöðunni 55-54. KR svaraði hins vegar að bragði, komst aftur sex stigum yfir. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 65-63 fyrir KR og úrslitakeppnissætið í augsýn. 

Lokafjórðungurinn var æsispennandi. Liðin skiptust á forystunni og þegar fjórar mínútúr voru eftir leiddi KR 78-77. Þá náði Grindavík áhlaupi, komst sex stigum yfir og það var munur sem KR náði ekki að brúa. Þeir fengu lokasóknina til að jafna metin en skot Nimrod Hilliard skoppaði af hringnum og 86-83 sigur Grindavíkur staðreynd.

Jakob Örn Sigurðarson þjálfari KR sést hér ásamt öðrum KR-ingum þar sem þeir fylgjast með lokasekúndunum í leik Þórs Þorlákshöfn og Keflavíkur. KR þurfti sigur Þórsara sem varð ekki raunin og Vesturbæingar því úr leik í Bónus-deildinni þetta árið.Vísir/Smári Jökull

Eftir leik biðu KR-ingar með öndina í hálsinum eftir úrslitum í leik Þórs Þorlákshöfn og Keflavík. Sigur Þórs hefði þýtt að KR færi í úrslitakeppnina en þar sem Keflavík vann situr KR eftir með sárt ennið. Grindvíkingar enda í 5. sæti deildarinnar og mæta því Val í 8-liða úrslitum. Endurtekning á úrslitaeinvígi síðasta árs og ég held að aðdáendur körfuboltans bíði spenntir eftir því einvígi.

Atvik leiksins

Skot Nimrod Hilliard á lokasekúndunni hefði getað komið KR í framlengingu. Hann fékk ótrúlega opið skot af töluvert löngu færi en boltinn skoppaði af hringnum.

Stjörnur og skúrkar

Jeremy Pargo var frábær í fyrri hálfleik. Hann lauk leik með 25 stig og 6 stoðsendingar. DeAndre Kane og Daniel Mortensen stigu upp í síðari hálfleik en heilt yfir var leikur Grindvíkinga ekki sá besti.

Nimrod Hilliard var frábær hjá KR og hefði átt skilið að tryggja liðinu framlengingu undir lokin. Hann lauk leik með 27 stig og 7 stoðsendingar.

Dómararnir

Bjarki Már Davíðsson, Bigir Hjörvarsson og Daníel Steingrímsson fengu smá hita frá KR-ingum sem fannst á sig hallað lengi vel í leiknum og höfðu stundum eitthvað til máls, eins og gengur og gerist. Heilt yfir var leikurinn ágætlega dæmdur.

Stemmning og umgjörð

Miðja þeirra KR-inga söng nánast allan leikinn í dag. KR-ingar voru fjölmennari en Grindvíkingar í stúkunni og stemmningin var þeirra megin, nema undir lok leiks. Það er þó viðbúið að stemmningin Grindavíkurmegin skrúfist vel upp þegar liðið mætir Val í 8-liða úrslitum Bónus-deildarinnar.

Viðtöl

„Ég er alveg peppaður að halda áfram“

„Sár og svekktur og mikil vonbrigði að ná ekki að klára þennan leik og vinna hann, koma okkur í úrslitakeppnina. Mjög svekktur og vonsvikinn að tímabilið sé búið,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson þjálfari KR aðspurður um tilfinningarnar eftir leik.

KR var með forystu allan fyrri hálfleikinn og langt inn í þann seinni. Grindavík var hins vegar sterkari aðilinn á lokasprettinum og tryggði sér sigurinn.

„Mér fannst við vera með ágætis tök á leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við hefðum átt að nýta tækifærið betur þá að slíta þá frá okkur, byggja upp forystu og fara með meiri forystu inn í hálfleikinn. Svo er þetta jafn leikur og getur dottið hvoru megin sem er. Það var lítið sem skildi að í fjórða.“

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, var svekktur eftir að ljóst var að KR kæmist ekki í úrslitakeppnina.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Þegar Jakob horfði til baka gat hann strax nefnt nokkra leiki þar sem hann vildi meina að KR hefði átt að gera betur.

„Það eru margir leikir í vetur sem mér finnst að við hefðum átt að klára, hefðum hreinlega átt að vinna. Heimaleikurinn gegn Stjörnunni, báðir leikir gegn ÍR og örugglega fleiri. Hefðum getað lokað leiknum gegn Keflavík betur og átt innbyrðis og þá erum við inni. Það eru alls konar hlutir yfir tímabilið þar sem við getum gert betur og hefðum átt að gera betur.“

„Þetta er staðan sem við erum í, tímabilið er búið og við þurfum að reyna að horfa á þessi jákvæðu skref sem við höfum tekið. Það var töluvert jákvætt í félaginu í vetur, frábær stuðningur sem við fengum á öllum leikjum, komumst í úrslit í bikar. Lítil og jákvæð skref sem gerðust. Við þurfum að reyna að taka það með okkur og taka ennþá stærri skref á næsta tímabili.“

Jakob sagðist vera með samning áfram en að framundan væri samtal við stjórn KR um framhaldið.

„Það er samningur en eins og með flesta samninga á Íslandi þá er alltaf tekið samtal eftir hvert tímabil með stjórn og fleirum, skoðað hvernig staðan er. Ég er í raun ekkert kominn þangað, ég ætlaði mér ekki að hugsa út í það heldur einbeita mér að úrslitakeppni. Það kemur bara í ljós.“

Þegar örlítið meiri pressa var sett á Jakob að svara sagðist hann jákvæður fyrir því að halda áfram sem þjálfari KR.

„Mér finnst mjög skemmtilegt og gaman að þjálfa, flott lið sem ég er með í höndunum og ég er mjög ánægður í klúbbnum og með metnaðinn. Það er vel staðið að öllum hlutum og mér líður vel. Mér finnst ég vera alveg eins og liðið taka skref sem þjálfari og ég finn mun á mér síðan í fyrra og fyrr í vetur. Ég er alveg peppaður fyrir að halda áfram.“

„Við þurfum fullt af fólki“

Jeremy Pargo átti góðan leik fyrir Grinadavík gegn KR í kvöld. Hann sagði lið Grindavíkur hafa stigið upp í síðari hálfleik eftir slakan fyrri hálfleik.

„Það er málið með körfubolta, þú færð tækifæri til að aðlaga þig í hálfleik. Þeir skoruðu 50 stig í fyrri hálfleik sem er mikið en við héldum þeim í 33 stigum í seinni og unnum þennan þriggja stiga sigur.“

Jeremy Pargo var stigahæstur hjá Grindavík í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Framundan er einvígi Grindavíkur og Vals í 8-liða úrslitum og virtist Pargo spenntur fyrir þeirri áskorun.

„Þetta er körfubolti, þú þarft að mæta og spila sama hver andstæðingurinn er. Við myndum mæta þeim á einhverjum tímapunkti, þeir unnu síðasta leik og við skuldum.“

Hann hvatti Grindvíkinga til að fjölmenna á næstu leiki liðsins. Pargo er á sínu fyrsta tímabili á Íslandi en hann kom til Grindavíkur í janúar. 

„Þetta er nýtt fyrir mér. Ég veit að þeir unnu Grindavík í oddaleik í fyrra. Við þurfum fullt af fólki, ég held að KR hafði verið með fleiri í stúkunni í kvöld og ég fíla það ekki. Fyllum húsið og skemmtum okkur í úrslitakeppninni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira