Innlent

Af Al­þingi til Fjalla­byggðar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var matvælaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar en fer nú til starfa hjá Fjallabyggð.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var matvælaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar en fer nú til starfa hjá Fjallabyggð. Vísir/Vilhelm

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er búin að finna sér nýtt starf eftir að hafa verið matvælaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar á síðasta ári.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur verið ráðin í starf forstöðumanns velferðarsviðs hjá sveitarfélaginu Fjallabyggð en þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar frá því í gær. 

Bjarkey var alþingismaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi allt frá árinu 2013 og fram að kosningum í desember síðastliðnum. 

Var hún meðal annars þingflokksformaður Vinstri grænna á árunum 2017-2021 og gegndi starfi matvælaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar á síðasta ári þar til stjórnin sprakk í október. Gaf hún til að mynda grænt ljós á hvalveiðar síðastliðið sumar en sú ákvörðun vakti mikla athygli.

Bjarkey er menntaður grunnskólakennari auk þess að vera með diplómu í náms- og starfsráðgjöf. Hún á að baki starfsferil bæði í grunn- og framhaldsskóla sem og veitingarekstri og þá var hún bæjarfulltrúi í Ólafsfirði á árunum 2004-2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×