Samtökin No Borders Iceland standa fyrir mótmælunum, sem er lýst sem samstöðufundi og kröfuafhendingu, sem fara fram fyrir utan dómsmálaráðuneytið í Borgartúni 26 að morgni þriðjudagsins 22. apríl klukkan 9.
Samkvæmt skipuleggjendum mótmælanna verður Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra afhent krafa þess efnis að brottvísun Oscars verði stöðvuð fyrir lok hefðbundins skrifstofutíma sama dag.
Vilja taka Oscar að sér
Vísa á Oscari úr landi á þriðjudag en hann flúði til Íslands með föður sínum árið 2022 eftir að glæpamenn í Kólumbíu hótuðu þeim lífláti. Faðir Oscars beitti hann síðar ofbeldi og afsalaði sér forræði yfir honum.
Í október 2024 var Oscar sendur úr landi með föður sínum og endaði einn á götunni í Bogotá. Þar var hann í mánuð áður en fósturfjölskylda hans sótti hann og kom honum aftur til Íslands.
Hjónin Svavar Jóhannsson og Sonja Magnúsdóttir hafa gengið Oscari í foreldrastað og vilja taka hann að sér en mætt ýmsum hindrunum.
Útlendingastofnun hefur tilkynnt Oscari að hann þurfi að yfirgefa Ísland á ný og geti ekki sótt aftur um vernd.