Innlent

Bregðast af hörku við á­kalli for­eldra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þór Sigurgeirsson er bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Þór Sigurgeirsson er bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Vísir/Vilhelm

Seltjarnarnesbær hefur lagt af stað með aðgerðir til að bregðast við löngum biðlistum eftir leikskólaplássi í bænum. Bæjarstjóri segist vonast til þess að hægt verði að bæta við sextán nýjum plássum strax á næstu vikum. 

Í síðustu viku ræddi fréttastofa við tvær mæður á Seltjarnarnesi sem lýstu þungum áhyggjum af stöðu dagvistunar í bænum. Börn væru allt að 28 mánaða gömul þegar þau fengju pláss á leikskóla og engir dagforeldrar starfa í sveitarfélaginu. Þær hafi lengi óskað eftir úrbótum en lítið gerst.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir bæinn hafa nú brugðist við þessu ástandi.

„Ofan á þetta kemur að 2024 árgangurinn er mjög stór, sem er gleðiefni. Í gær lagði meirihlutinn í bæjarstjórn fram tillögu um að opna nýja deild á ungbarnaleikskólanum. Við eigum húsnæðið klárt í kjallara kirkjunnar. Nú erum við að fara í að undirbúa að opna deildina, ráða starfsfólk og stækka deildina,“ segir Þór. 

Leikskóli Seltjarnarness er með þrjár starfsstöðvar. Seltjarnarnesbær

Hann segir bæjaryfirvöld átta sig á stöðunni og að ástandið verði að skána. Vonandi verði hægt að taka börn inn í plássin sextán í vor.

„Það er líka annað í þessu, að Reykjavíkurborg hefur lokað á einkarekin úrræði fyrir aðra en börn sem hafa lögheimili í Reykjavík. Það gerðist pínulítið án þess að okkur var tilkynnt um það,“ segir Þór. 

Þá er fyrirhugað útboð í næsta mánuði vegna byggingar á nýjum leikskóla í bænum.

„Þetta er allt að fara í gang. Við þurfum að koma þessum leikskólamálum fyrir vind, eitt skiptið fyrir öll,“ segir Þór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×