Sport

Fimm ís­lensk gull­verð­laun í hús á fyrsta degi Smáþjóða­leikanna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðmundur Leó Rafnsson vann gull í dag.
Guðmundur Leó Rafnsson vann gull í dag. Mynd: Sundsamband Íslands

Ísland vann til sextán verðlauna á fyrsta degi Smáþjóðaleikana sem fram fara í Andorra. Fimm íslensk gullverðlaun komu í hús.

Flest verðlaunanna í dag komu frá sundfólki íslenska liðsins. Guðmundur Leó Rafnsson vann gull í 200 metra baksundi en hann kom í mark á tímanum 2:02.91 sekúnda en Guðmundur Leó vann með talsverðum yfirburðum. Bergur Fáfnir Bjarnason vann til bronsverðlauna í sömu grein.

Þá vann Ylfa Lind Kristmannsdóttir gull í 200 metra baksundi kvenna en hún kom í mark á tímanum 2:17.84 sekúndur. Í 4x100 metra boðsundi kvenna vann íslenska sveitin síðan öruggan sigur og kom í mark tæpum tíu sekúndum á undan sveit Kýpur sem varð í 2. sæti. Karlasveit Íslands vann silfur í sömu grein.

Í -90 kg flokki karla í júdó vann Aðalsteinn Björnsson gull og Birna Kristín Kristjánsdóttir vann gull í langstökki og Ísold Sævarsdóttir varð önnur í sömu grein og hlaut silfur.

Silfur hjá Kolbeini í 100 metra hlaupi

Vonir stóðu til að Kolbeinn Höður Gunnarsson myndi slá Íslandsmetið í 100 metra hlaupi. Það tókst ekki en Kolbenn vann til silfurverðlauna þegar hann kom í mark á tímanum 10.92 sekúndur en hann var fjórum sekúndubrotum á eftir Francesco Sansovini frá San Marino. Íslandsmet Kolbeins og Ara Braga Kárasonar er 10.51 sekúnda.

Í stangarstökki kvenna vann Karen Sif Ársælsdóttir silfur og Hafdís Sigurðardóttir vann brons í hjólreiðum kvenna. Íslenska kvennasveitin vann silfur í fimleikum og Helena Bjarnadóttir brons í -63 kg flokki í júdó.

Í 200 metra flugsundi vann Hólmar Grétarsson silfur og þá vann Ísland til tveggja verðlauna í 100 metra skriðsundi þar sem Snæfríður Sól Jórunnardóttir fékk silfur og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×