Innlent

Rit­höfundur ráðinn til varnar­mála­skrif­stofunnar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Halldór Armand leitar á ný mið.
Halldór Armand leitar á ný mið. Vísir/Vilhelm

Halldór Armand rithöfundur hefur hafið störf hjá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Ekki er þó um jafndrastísk vistaskipti að ræða og mætti halda, en Halldór er menntaður í alþjóðalögum og hefur lengi haft áhuga á utanríkismálum.

Í samtali við fréttastofu segist Halldór alltaf hafa haft áhuga á utanríkismálum og meistararitgerðin hans fjallaði um sjálfsvarnarrétt ríkja samkvæmt alþjóðalögum. Hann segist spenntur fyrir þessum nýja kafla og þakklátur fyrir tækifærið en hann var í hópi fárra umsækjenda sem ráðin voru.

Þegar það er borið undir hann að það þyki ekki dæmigert að listamaður snúi sér að varnarmálum svarar hann því á þann veg að hann sé ekki dæmigerður listamaður.

Halldór hefur haft það að aðalstarfi til fjölda ára en hann hefur gefið út fimm bækur, nú síðast bókina Mikilvægt rusl síðustu jól, en „að sjálfsögðu er ekki auðvelt að hafa í sig og á til lengdar með því brasi.“

Hann hóf störf fyrir fáeinum dögum og er titlaður sérfræðingur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×