Körfubolti

„Lukkudýrið“ í mál við fé­lagið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjallaljónið Rocky er lykkudýr Denver Nuggets og lengst var það af leikið af feðgum. Sonurinn tók við og var ekki sáttur þegar hann var rekinn þremur árum síðar.
Fjallaljónið Rocky er lykkudýr Denver Nuggets og lengst var það af leikið af feðgum. Sonurinn tók við og var ekki sáttur þegar hann var rekinn þremur árum síðar. Getty/Tyler McFarland

Sá sem lék launahæsta lukkudýrið í NBA deildinni í körfubolta er farinn í mál við félagið sem hann starfaði lengi fyrir.

Fjallaljónið Rocky er eitt frægasta lukkudýr NBA deildarinnar og sá sem lék það fyrst á árunum 1990 til 2021 var maður að nafni Kenn Solomon. Hann gerði lukkudýr Denver Nuggets að stórstjörnu í heimi lukkudýranna í bandarískum atvinnumannaíþróttum.

Solomon þurfti ekki að kvarta yfir laununum því hann fékk sex hundruð þúsund Bandaríkjadali í árslaun eða meira en 74 milljónir íslenskra króna.

Solomon hætti störfum eftir 31 ár af sprelli og áhættuatriðum en sonur hans Drake tók við af honum.

Drake hafði áður starfað sem hluti af skemmtiliði Nuggets og hjálpað til við sýningarnar á leikjum.

Strákurinn entist þó bara í þrjú ár sem fjallaljónið Rocky því félagið ákvað þá að láta hann fara.

Drake var mjög ósáttur með þann brottrekstur og er nú farinn í mál við Denver Nuggets.

Hann heldur því fram að brottreksturinn hafi verið ólögmætur af því að hann var á þeim tíma að jafna sig eftir aðgerð. Draka þurfti að láta skipta um mjaðmarlið hjá sér á 2023-24 tímabilinu. Aðgerðirnar urðu á endanum tvær.

Hann fann enn sársauka eftir fyrri aðgerðina og ákvað því að fara í aðra aðgerð aðeins nokkrum mánuðum síðar.

Þegar varð ljóst að hann yrði enn lengur frá þá hélt Nuggets áheyrnarprufur fyrir næsta Rocky. Um leið og eftirmaðurinn fannst þá var Drake látinn taka pokann sinn.

Drake vill nú leita réttar síns og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu dómsmáli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×