Portúgalski flugherinn hefur rukkað fiskimann um eina komma tvær milljónir króna fyrir að bjarga honum af bát sínum þegar hann fékk botlangakast. Flugherinn sendi þyrlu eftir manninum til þess að flytja hann á sjúkrahús.
Sjómenn og samtök þeirra hafa brugðist reið við þessum reikningi. Þau segja hann vera óásættanlegan, ólöglegan og ógeðslegan. Sjómannasamtökin hafa sent varnarmálaráðherra bréf með þessu áliti sínu.
Fiskimaðurinn hefur ekki borgað reikninginn, segist ekki eiga fyrir honum. Flugherinn hefur því höfðað mál gegn honum.