Samningur NFL-leikmannsins Eddie Lacy við Seattle Seahawks er afar sérstakur en hann var að fá bónus í annað sinn fyrir það eitt að vera ekki of feitur.
Í tvígang hefur Lacy fengið fimm og hálfa milljón króna fyrir það eitt að vera í réttri þyngd. Hann er því búinn að fá 11 milljónir króna aukalega í vasann löngu áður en tímabilið hefst.
Lacy hefur síðustu ár verið gagnrýndur fyrir að vera of feitur og Green Bay Packers gafst upp á honum og sendi hann til Seattle fyrir lítinn pening.
Þar prófa menn nýjar aðferðir til þess að halda Lacy í formi og það byrjar ágætlega.
Verður áhugavert að sjá hvernig hlauparinn verður næsta vetur eftir að hafa haldið sér í formi allt undirbúningstímabilið. Það er þó ekki ókeypis að halda honum í formi.

