Seattle fór nokkuð hægt af stað á nýju tímabili en hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum. Liðið var með foryrstu, 15-10, snemma í fjórða leikhluta og með boltann á eigin vallarhelmingi.
Russell Wilson, leikstjórnandi Seahawks, hafði fengið litla vernd frá sóknarlínu sinni og varnarmenn Arizona hundeltu hann, einu sinni sem oftar í leiknum. En í stað þess að láta fella sig náði Wilson á ótrúlegan máta að kasta boltanum á útherjan Doug Baldwin, sem hljóp 54 jarda með boltann en var ýtt af velli rétt við endamarkið.
Í næsta kerfi náði Wilson að gefa snertimarkssendingu á innherjann Jimmy Graham og auka þar með forystu liðsins í 22-10.
Ljóst er að kastið ótrúlega á Baldwin, sem má sjá hér fyrir neðan, var lykilatriði fyrir Seattle í leiknum. Hefði Wilson verið felldur hefðu verið meiri líkur á að Seattle hefði misst boltann og Arizona þar með haft tækifæri til að komast yfir.
Sigurinn var þó dýrkeyptur fyrir Seattle en alls sjö leikmenn fóru af velli vegna meiðsla í leiknum og komu ekki meira við sögu. Alvarlegustu meiðslin voru þó hjá varnarmanninum Richard Sherman, einnar stærstu stjörnu deildarinnar, sem sleit hásin og spilar ekki meira á tímabilinu.
Tveir NFL-leikir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 á sunnudag. Klukkan 18.00 hefst leikur Buffalo Bills og New Orleans Saints en klukkan 21.20 mætast Atlanta Falcons og Dallas Cowboys.