Leikstjórnandinn Jimmy Garoppolo fór frá New England Patriots til San Francisco 49ers á miðju ári en hann er samt enn að græða á góðu gengi Patriots.
Garoppolo er samt enn á launaskrá hjá Patriots og hann er þegar búinn að fá 8 milljónir króna fyrir árangur Patriots í vetur og hann mun fá fleiri milljónir eftir Super Bowl-leikinn.
Ef Patriots vinnur Super Bowl þá fær Garoppolo 11,5 milljónir króna til viðbótar í vasann. Tapi Patriots leiknum þá fær Garoppolo samt tæpar 6 milljónir króna. Ekki amalegt fyrir mann sem horfir á leikinn upp í sófa heima hjá sér.
Garoppolo byrjaði ferilinn hjá 49ers frábærlega eftir að hafa eytt þremur og hálfu ári sem varamaður Tom Brady. 49ers var 1-10 er hann kom til félagsins en með Garoppolo sem leikstjórnanda vann 49ers síðustu fimm leiki sína á tímabilinu.

