Ónefndur veðmálafíkill í Las Vegas vakti mikla athygli er hann veðjaði rétt á ótrúlega úrslitarimmu í bandarísku hafnaboltadeildinni, MLB. Hann er nú búinn að setja pening á Super Bowl-leikinn.
Þessi maður gengur undir nafninu „Bettor X“ og hann er búinn að veðja einni milljón dollara, eða rúmum 100 milljónum króna, á sigur Philadelphia Eagles gegn New England Patriots. Það væru mjög óvænt úrslit.
Ef það gengur eftir mun „Bettor X“ græða 167 milljónir króna. Fleiri hákarlar hafa verið að setja í kringum milljón dollara á Eagles hjá veðbönkum í Las Vegas.
Alls veðjaði fólk um 140 milljónum dollara á Super Bowl í Las Vegas á síðasta ári en reiknað er með mun fleiri veðmálum á leikinn í ár.
Super Bowl-leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport næsta sunnudagskvöld. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 23.30 en vegleg upphitun hefst í beinni klukkan 22.00.
