Sean Hannity, starfsmaður Fox og vinur Trump, fór upp á svið með forsetanum og tók beinan þátt í kosningabaráttu hans, þrátt fyrir að hafa sagt klukkustundum áður að hann myndi ekki gera það.
Það var nánast fyrsta verk Trump þegar hann mætti á svið að kalla á Hannity. Áður en forsetinn kallaði Hannity upp á svið hrósaði hann Fox og sagði starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar mjög sérstaka.
„Þau hafa unnið ótrúlegt starf fyrir okkur. Þau hafa verið með okkur frá upphafi,“ sagði Trump. Skömmu áður hafði Trump verið í beinni útsendingu Hannity frá kosningafundinum. Eftir viðtal þeirra þar gáfu Hannity og Bill Shine hvorum öðrum fimmu. Shine er núverandi samskiptastjóri Hvíta hússins en fyrrverandi forstjóri Fox News.
In spite of reports, I will be doing a live show from Cape Girardeau and interviewing President Trump before the rally. To be clear, I will not be on stage campaigning with the President. I am covering final rally for my show. Something I have done in every election in the past.
— Sean Hannity (@seanhannity) November 5, 2018
Það er þó vert að benda á að starfsmenn fréttastofu Fox voru meðal þeirra blaðamanna sem Hannity kallaði „falsfréttir“. Þá er einnig vert að benda á að deilur hafa verið uppi á milli þáttastjórnenda Fox og blaðamanna stöðvarinnar. Þættir eins og þeir sem Hannity stjórnar eru ekki skilgreindir sem fréttaþættir og blaðamenn Fox hafa gagnrýnt hvernig stjórnendur þeirra sniðganga raunverulegan fréttaflutning Fox.
Sjá einnig: Áhorfendur kalla eftir brottrekstri sannsöguls fréttaþular Fox
Hannity notaði tíma sinn á sviðinu einnig til að lofa Trump í hástert og fór yfir meint afrek hans í Hvíta húsinu, án þess þó að hafa sannleikann að leiðarljósi. Hannity hrósaði Trump einnig fyrir það hve orkumikill hann væri og sagðist telja að enginn annar væri svo orkumikill.
Jeanine Pirro, sem er stjórnar einnig þætti á Fox, var sömuleiðis kölluð upp á svið. Trump sagði hana „koma mjög vel fram við okkur“. Auk þess að vera þáttastjórnandi Fox er Pirro höfundur bókarinnar; Liars, Leakers and Liberals: The Case Against the Anti-Trump Conspiracy.
Þegar hún steig á svið hvatti hún áhorfendur til að kjósa Trump og til þess að fá aðra til að kjósa Trump.
Talsmenn Fox hafa neitað að tjá sig um kosningafundinn við CNN. Hins vegar bendir miðillinn á að eftir að Hannity tók þátt í kosningaauglýsingu fyrir Trump árið 2016 sagði talsmaður Fox að fyrirtækið hefði ekki haft vitneskju af þátttöku Hannity í auglýsingunni og að hann myndi „ekki gera slíkt aftur í kosningabaráttunni“.