Hann leggur áherslu á að málið verði leitt til lykta og ekki anað að niðurstöðu. Samtök atvinnulífsins setji sig ekki upp á móti öflugu eftirliti, þó svo þau lýsi efasemdum sínum um umfang íslenskra eftirlitsstofnana.
Segjast slegin yfir ásökununum
Samtök atvinnulífsins sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöld, þar sem samtökin segjast vera slegin yfir þeim fréttum sem birst hafa síðustu daga og snúa að viðskiptum Samherja í Namibíu. Lögð er áhersla á að málið verði rannsakað gaumgæfilega og fagna samtökin því að stjórn Samherja hafi blásið til rannsóknar og „hafist handa með afdráttarlausum aðgerðum að endurvinna traust,“ eins og það er orðað.„Það sem er þarna verið að tala um er auðvitað grafalvarlegt mál og í andstöðu við það sem við viljum vinna eftir, íslenskt atvinnulíf,“ segir Eyjólfur í samtali við fréttastofu.
Hann segir samtökin stöðugt beina því til sinna aðildarfélaga að fara að lögum og reglum.
„En að því sögðu þá er auðvitað rétt að það komi fram að þetta tiltekna mál er á algjöru byrjunarstigi og eðlilegt að sjá hvernig því fram vindur og gefa aðilum máls færi á að koma sínum gögnum á framfæri.“
SA beitt sér fyrir einföldun eftirlits með fyrirtækjum
Nú hafa Samtök atvinnulífsins lýst efasemdum um það sem þið kallið eftirlitssamfélagið, segið að þar ríki tortryggni í garð atvinnulífsins og hafið kallað eftir einföldun eftirlits. Sýnir Samherjamálið ekki einmitt að þörf sé á virku og öflugu eftirliti með íslenskum fyrirtækjum?„Jú, það er alveg hárrétt hjá þér. Það er nefnilega þörf á virku og öflugu eftirliti en magn eftirlits og mikið eftirlit er ekki endilega virkt eftirlit. Við erum ekki og munum aldrei verða á móti eftirliti,“ bætti Eyjólfur við.
Eyjólfur segir mikilvægt að ekki verði anað að niðurstöðum, það séu heildarhagsmunir allra að niðurstaða fáist í málið og að og að orðspor þjóðarinnar og atvinnulífs á Íslandi skaðist sem minnst.
„Það er þannig að traust í öllum samskiptum er gríðarlega mikilvægt. Það er ekki nema tíu ár síðan við fórum í gegnum skafl sem rýrði traust allverulega. Það tekur stuttan tíma að hreyta því frá sér en langan tíma að vinna það upp, þannig að það er mjög mikilvægt að viðhalda því,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.