Erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi voru 48.996 þann 1. nóvember síðastliðinn. Hafði þeim fjölgað um 4.840 eða ellefu prósent frá 1. desember á síðasta ári. Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum aðeins um 0,6 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.
Pólverjar eru langfjölmennastir erlendra ríkisborgara eða 20.537 sem gerir 5,7 prósent íbúa á Íslandi. Íslenskir ríkisborgarar eru 86,5 prósent mannfjöldans og aðrir erlendir ríkisborgarar, eru 7,8 prósent.
Næstflestir erlendir ríkisborgarar eru frá Litháen, eða 4.587. Þá eru rúmlega tvö þúsund frá Lettlandi og Rúmeníu.
