Körfubolti

Ís­lands­meistararnir sluppu með skrekkinn í Grinda­vík | Úr­slit kvöldsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helena var öflug í kvöld eins og svo oft áður.
Helena var öflug í kvöld eins og svo oft áður. vísir/bára

Íslandsmeistarar Vals í Dominos-deild kvenna lentu í hörkuleik gegn nýliðum Grindavík í kvöld en þær höfðu betur að endingu, 74-73.

Jafnræði var með liðunm allan leikinn og voru heimastúlkur yfir í hálfleik, 40-35.

Góður þriðji leikhluti lagði grunninn að sigri Vals. Þær unnu hann með sex stiga mun en Jordan Airess mistókst að jafna muninn fyrir Grindavík á síðustu sekúndunni.

Bríet Sif Hinriksdóttir var aftur frábær í liði Grindavíkur. Hún skoraði 25 stig og tók ellefu fráköst og Jordan Airess Reynolds gerði sextán stig, tók tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Kiana Johnson var stigahæst hjá Val með 22 stig. Að auki tók hún þrettán fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Valur er á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forskot á KR en Grindavík er á botninum með tvö stig.

Snæfell vann sigur á Breiðabliki, 67-61, er liðin mættust í Hólminum í kvöld. Snæfell var 39-31 yfir í hálfleik en Blikarnir skoruðu einungis tíu stig í fyrsta leikhlutanum.

Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 23 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í liði Snæfells en Amarah Kiyana Coleman bætti við átján stigum.

Danni L Williams var í sérflokki í liði Blika. Hún gerði 34 stig, tók tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði tíu stig og tók sjö fráköst.

Breiðablik er í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig en Snæfell er sæti ofar með átta stig.

Skallagrímur gerði sér lítið fyrir og vann Hauka á heimavelli, 73-59, en tölfræði hefur ekki borist úr leiknum.

Liðin eru því jöfn í 4. og 5. sæti deildarinnar en Haukarnir höfðu unnið fimm leiki í röð fyrir leik kvöldsins.

KR vann svo Keflavík í stórleik umferðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×