Innlent

Sam­ræma þjónustu fyrir flótta­fólk sem kemur til landsins

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að þegar hafi tekist samningar við Samtök íslenskra sveitarfélaga um samræmdar aðgerðir.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að þegar hafi tekist samningar við Samtök íslenskra sveitarfélaga um samræmdar aðgerðir. Vísir/Vilhelm

Félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa ákveðið samræma þjónustu fyrir allt flóttafólk sem hingað kemur. Félagsmálaráðherra segir að ef sveitarfélög fallist ekki á samninginn dragist verkefnið á langinn.

Á síðustu tuttugu mánuðum hefur metfjöldi hælisleitenda fengið dvalarleyfi hér á landi, alls sjö hundruð manns. Af þeim hafa fimm hundruð valið að búa í Reykjavík og sér borgin því um stuðning og ráðgjöf fyrir hópinn eftir að hann hefur fengið dvalarleyfi frá Útlendingastofnun.

Í langflestum tilvikum kemur fólk hingað allslaust og fær framfærslustyrk og stuðningsþjónustu frá ríki og borg.

Útgjöld Reykjavíkurborgar hafa aukist mikið vegna málaflokksins síðustu ár og í vikunni kom fram að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi óskað eftir 100 milljón króna fjárframlagi frá ríkinu vegna félagsþjónustu við hópinn og óskaði eftir viðræðum við félagsmálaráðuneytið vegna samræmdrar þjónustu við flóttafólk.

Rauði krossinn sér um margs konar þjónustu við flóttafólk og þar hefur komið fram að mikilvægt sé að samræma aðgerðir milli stofnana þegar kemur að málaflokknum.

Munu svo setjast niður og meta árangurinn

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að þegar hafi tekist samningar við Samtök íslenskra sveitarfélaga um samræmdar aðgerðir.

„Það er búið að ganga frá samningum þar á milli um tilraunaverkefni til eins árs. Við erum að keyra það af stað. Það fylgir þessu fjármagn til þessa árs og að loknu þessu ætlum við að setjast niður og meta árangurinn,“ segir Ásmundur. 

Aðspurður um kröfu Reykjavíkurborgar um aukið fjárframlag frá ráðuneytinu segir Ásmundur: „Við erum að vinna eftir þeirri fjáraukningu sem lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins. Samningar við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa miðað við þá upphæð. Ef við eigum að hefja þá samninga á nýjan leik þá kostar það tafir vegna þess að það er allt tilbúið til að fara af stað,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×