Tvær flugvélar Icelandair munu fljúga frá Alicante til Íslands í kvöld. Enn eru sæti laus í annað flugið, að sögn upplýsingafulltrúa Icelandair. Í gær stóð til að ferja fólkið til landsins með stórri vél en nú hefur verið ákveðið að nýta tvær minni vélar og auka þannig sætaframboð.
Vélarnar tvær lenda á milli klukkan 22 og 22:30 í kvöld en upplýsingar um flugáætlun dagsins má nálgast á vef Isavia. Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við fréttastofu á ellefta tímanum að um sé að ræða tvær Boeing 757 vélar. Vélarnar taka 183 farþega hvor um sig og enn voru laus 55 sæti í annað flugið nú í morgun.
Fimmtán daga útgöngubann tók gildi á Spáni í morgun þar sem fólk er beðið um að halda sig innandyra og vera ekki á ferli nema til að sinna nauðsynlegum hlutum á borð við matar- og lyfjakaup.
Greint var frá því í gær að mjög fljótt hefði orðið fullbókað í aukaflug Icelandair frá Alicante í dag og því hefði verið ákveðið að auka sætaframboð, fyrst með því að fljúga með stærri flugvél.
Þá kom jafnframt fram í gær að ágætlega hefði gengið að koma Íslendingum sem staddir eru erlendis til landsins. Voru þá um 5.400 manns á skrá hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem enn voru staddir erlendis.