„Á næstu tveimur árum viljum við stöðva alvarleg vandamál. Ólöglega innflytjendur, fíkniefnasmygl og tilfærslu stolinna bifreiða,“ sagði Luis Abinader, forseti Dóminíska lýðveldisins, í dag þegar hann kynnti verkefnið fyrir dóminíska þinginu.
Framkvæmd verkefnisins hefst á síðari hluta þessa árs en það hefur ekki verið gert opinbert hver kostnaðurinn við framkvæmdirnar er.
Girðingin verður sums staðar tvöföld, eða á þeim stöðum sem dómínísk yfirvöld telja flesta reyna að komast yfir landamærin. Þá verða hreyfiskynjarar á girðingunni, öryggismyndavélar sem greina andlit og innrauð skynjunarkerfi.
Samkvæmt mati dóminískra yfirvalda bjuggu um 500 þúsund haítískir innflytjendur í Dóminíska lýðveldinu árið 2018. Þar eru börn innflytjendanna, sem fæddust í lýðveldinu, ekki talin með en talið er að þau telji tugþúsundir. Haítíska samfélagið í Dóminíska lýðveldinu telur um fimm prósent allra íbúa en stór hluti þeirra hafa ekki fengið landvistarleyfi.