Holliday varð 61 árs að aldri og lést á sjúkrahúsi í Los Angeles vegna veikinda tengdum Covid-19. Bandarískir fjölmiðlar segja Holliday ekki hafa verið bólusettan og að hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús fyrir um mánuði. Síðustu daga hafi hann verið í öndunarvél.

Holliday tók upp árásina á hinn svarta Rodney King fyrir utan heimili sitt í San Fernando Valley þann 3. mars 1991. Á myndbandsupptökunni mátt sjá hvernig King var dreginn út úr bíl sínum og barinn af lögreglumönnunum eftir að hann hafi neitað að fara út og gangast undir próf hvort hann hafi verið að aka bílnum undir áhrifum.
Lögreglumennirnir voru um ári síðar sýknaðir af ákæru, en sýknudómurinn leiddi til sex daga ófremdarástands í Los Angeles þar sem kveikt var í ótal bílum og brotist var inn í mikinn fjölda verslana. Alls létust rúmlega sextíu manns í óeirðunum. Mikið var rætt um stöðu svartra í bandarísku samfélagi í kjölfar árásarinnar og sýknudómsins.

Rodney King lést árið 2012, en dóttir hans, Lora Dene King, hefur sent fjölskyldu Hollidays samúðarkveðjur. „King-fjölskyldan verður ætíð í þakkarskuld við George Holliday, sem hafði hugrekki og sannfæringu til að tryggja að lögreglan yrði dregin til ábyrgðar vegna hinnar grimmu misþyrmingar á föður okkar Rodney,“ segir í yfirlýsingu frá Loru Dene King.