Geimferðinni sem lauk í nótt var sú lengsta sem farin hefur verið á bandarísku geimfari. Geimfararnir sem sneru til jarðar í nótt eru þau Thomas Pesquet (ESA), Megan McArthur (NASA), Shane Kimbrough (NASA) og Aki Hoshide (JAXA).
Í geimnum fóru þau 3.194 sinnum í kringum jörðina, fóru í fjórar geimgöngur og framkvæmdu fjölmargar rannsóknir um borð í geimstöðinni.
Heimferðin tók átta klukkustundir en geimfararnir þurftu að notast við bleyjur þar sem salerni geimfarsins var bilað.
Sjá einnig: Koma bleyjuklæddir heim vegna salernisbilunar
Nú eru þrír geimfarar um borð í geimstöðinni, þeir Anton Shkaplerov, Mark Vande Hei og Pyotr Dubrov.
Á morgun stendur svo til að skjóta fjórum geimförum til viðbótar út í geim frá Bandaríkjunum. Það geimskot átti vera sunnudaginn 31. október en hefur verið frestað vegna veðurs. Heimkomu geimfaranna var einnig frestað um nokkra daga vegna veðurs.
Þrír geimfaranna eru á vegum Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og einn á vegum Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA). Frá Bandaríkjunum eru þau Raja Chari, Tom Marshburn og Kayla Barron. Matthias Maurer verður á vegum ESA.
Sjá einnig: Kanna leiðir til að draga úr áhrifum geimferða
Hér má horfa á þriggja tíma langa útsendingu NASA frá lendingunni í nótt.