DV greindi frá þessu í dag og vísaði þar til dóms sem féll í Eystri Landsrétti Danmerkur. Maðurinn er sagður hafa verið dæmdur fyrir að hafa nauðgað dóttur sinni ítrekað á fjögurra ára tímabili, frá því hún var fimm ára þar til hún varð níu ára gömul.
Hann neitaði sök í málinu en fyrr á þessu ári var hann dæmdur í undirrétti í fjögurra ára fangelsi. Hann hafi þá áfrýjað dómnum til Eystri Landsréttar, sem þyngdi dóminn.
Samkvæmt frétt DV er um sama mann að ræða og var handtekinn á Spáni í október 2020 en hann var þá á flótta vegna rannsóknar danskra yfirvalda. Hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. júní 2020 í Danmörku en þar sem hann bjó þá á Spáni hafi verið gefin út evrópsk handtökuskipun á hendur honum.
Dönsk lögregla hafi haft málið til rannsóknar frá árinu 2018 eftir að sveitarfélagið Nyborg tilkynnti um ofbeldið.
Rannsóknin hafi leitt það í ljós að á árunum 2006 til 2010, þegar maðurinn hafði umgengni við dóttur sína, hafi hann ítrekað neytt hana til að hafa við sig kynferðismök. Brotin hafi átt sér stað á Íslandi og í Danmörku. Þá var hann einnig sakaður um að hafa beitt dóttur sína ofbeldi til að ná vilja sínum fram gegn henni, sem hann var svo einnig sakfelldur fyrir.