Síðustu misseri hafa fréttir um ofbeldi meðal barna og ungmenna verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum. Fréttir af hnífa-og hópárásum eru þar á meðal.
Rannveig Þórisdóttir sviðsstjóri hjá Ríkislögreglustjóra segir að þó fleiri tilkynni ofbeldisbrot nú en áður þýði það ekki sjálfkrafa fjölgun brota.
„Þó að við séum að sjá aukningu síðustu ár þá var búin að vera fækkun á árunum áður þannig að fjöldi brota er svipaður og árið 2007. Ályktunin sem má draga af þessu er að mögulega er ofbeldi ekki að aukast í samfélaginu heldur að það er verið að tilkynna ofbeldi í auknum mæli til lögreglu og barnaverndar. Sem að einhverju leyti er ánægjuleg þróun,“ segir Rannveig.
Hún segir þó vísbendingar um að fleiri alvarleg ofbeldisbrot meðal ungmenna en áður.
„Við erum að sjá smávægilegar vísbendingar um að hærra hlutfall mála séu tengd alvarlegri atvikum,“ segir hún.
Rannveig segir brotin af margvíslegum toga.
„Flest brot sem snúa að börnum og ungmennum eru smávægileg. Í gögnum lögreglu þá er þetta að miklu leyti ofbeldi innan fjölskyldna, þá börn sem beita fjölskyldumeðlimi ofbeldi eða búa við ofbeldi og eru beitt ofbeldi. En að sjálfsögðu eru þetta líka tilvik þar sem börn eru að beita önnur börn ofbeldi,“ segir hún.
Hvatningarátak lögreglu að skila sér
Hún segir átak lögreglu frá 2014 þar sem fólk hefur verið hvatt til að tilkynna um ofbeldi sé að skila sér og að lögregla tilkynni brot gegn börnum og ungmennum ávallt til barnaverndar. Þá komi fleira til eins og opnari umræða um ofbeldi og minna þol í samfélaginu.
„Ég held að opin umræða um þessi mál og hvatning um að skila skömminni sé klárlega að skila því að börn og ungmenni og almenningur yfirhöfuð frekar um ofbeldisbrot en áður,“ segir hún.
Hún segir gríðarlega mikilvægt að kerfið haldi vel utan um þolendur.
„Þó tel ég líka að það sé mikið af málum sem séu ekki tilkynnt. Þá þarf að efla þann stuðning sem þolendur fá þegar þeir tilkynna brot gagnvart sér,“ segir Rannveig Þórisdóttir.