„Við höfum aldrei prófað þetta áður,“ segir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í samtali við Vísi en um er að ræða hans eigin tillögu. Hugmyndin er að Hafnarstræti, frá gatnamótum við Austurveg verði göngugata milli kl. 09:00 og 15:00, að teknu tilliti til vörulosunar og aksturs fatlaðra.
Í minnisblaði sínu til bæjarstjórnar vegna málsins leggur Gylfi til að miðað verði við samanlagt 3000 farþega skemmtiskipa. Það myndi þýða að gatan yrði að göngugötu 30 daga á ári en það þótti full bratt fyrst um sinn.

Fimm til sex dagar á ári
„Það var upprunalega hugmyndin en okkur langar fyrst til þess að prófa þetta með íbúum og datt þá í hug að miða frekar við 5000 farþega sem eru fimm til sex dagar á ári og verður þetta því tilraun í sumar,“ segir Gylfi sem segir að lögð verði áhersla á að gera þetta í sátt við íbúa.
Vonast er til þess að þetta bæti bæjarbrag og auki umferðaröryggi gangandi, styðji við verslun í miðbænum, í húsnæði eða söluvögnum og hvetji íbúa til þess að fara erinda sinna hjólandi eða gangandi þá daga sem margir farþegar eru í höfn, að því er fram kemur í minnisblaðinu.
„Ég er að vona að við náum nokkrum dögum í sumar til þess að prufukeyra þetta og þá getum við æft okkur enn frekar í vetur og komið fílefld til baka næsta sumar,“ segir Gylfi.