Meðal þeirra sem sótt hafa Norður-Kóreu heim eru Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, og Li Hongzhong, meðlimur í framkvæmdastjórn kommúnistaflokks Kína. Þeir eru fyrstu erlendu embættismennirnir sem heimsækja Norður-Kóreu frá því faraldur Covid hófst, að sendiherra Kína undanskildum en hann fór til Norður-Kóreu í mars.
Samkvæmt frétt Reuters er búist við því að þeir muni sækja stærðarinnar skrúðgöngu þar sem Kim Jong Un, einræðisherra, mun sýna nýjustu vopn sín. Gervihnattamyndir sýna að æfingar fyrir skrúðgönguna hafa staðið yfir í nokkrar vikur.
Líklegt þykir að Kim muni sýna nýjar langdrægar eldflaugar sem eiga að geta borið kjarnorkuvopn alla leið til Bandaríkjanna. Kim hefur um árabil lagt mikið púður í þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera þau, á sama tíma og þjóð hans hefur gengið í gegnum hungursneyð og önnur harðindi.

Kóreustríðið hófst árið 1950, þegar Norður-Kórea réðst á Suður-Kóreu og reyndi að ná tökum á öllum Kóreuskaganum. Hið nýstofnaða lýðveldi í Kína kom Norður-Kóreu til aðstoðar auk flughers Sovétríkjanna. Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir undir stjórn Sameinuðu þjóðanna komu Suður-Kóreu til aðstoðar.
Stríðinu lauk með vopnahléi árið 1953 en aldrei hefur verið skrifað undir friðarsamkomulag, svo ríkin eiga enn, tæknilega séð, í stríði. Þó Norður-Kóreu hafi mistekist að hertaka suðrið halda yfirvöld í Norður-Kóreu upp á daginn þegar vopnahléið var samþykkt sem sigur í stríði sem kallað er „Stóra föðurlands frelsisstríðið“ í Norður-Kóreu, eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar.
Undanfarin ár hefur spennan á Kóreuskaganum aukist jafnt og þétt og þykir hún mjög mikil. Kim hefur ekki viljað taka þátt í viðræðum um kjarnorkuvopn sín, þar sem hann telur þau tryggingu gegn því að honum verði komið frá völdum.
Sjá einnig: Æfðu kjarnorkuárás á Suður-Kóreu
Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, þykir líklegur til að nota hátíðarhöldin í Norður-Kóreu til að ítreka þá ógn sem Suður-Kóreu stafar af nágrönnum sínum í norðri og til að ítreka mikilvægi þess að hann haldi hernaðaruppbyggingu sinni áfram og auki samstarf Suður-Kóreu og Bandaríkjanna.