Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningamála sátu fyrir svörum fulltrúa í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á opnum fundi nefndarinnar í morgun. Ásgeir sagði íslenskt efnahagslíf hafa gengið í gegnum einn mesta samdrátt frá stríðslokum í kórónuveirufaraldrinum og síðan gríðarlega mikla uppsveiflu eftir það með 7,8 prósenta hagvexti árið 2022.
Seðlabankinn hefði lækkað vexti í samdrættinum en síðan verið fyrstur vestrænna seðlabanka til að hækka vexti. Peningastefnan væri að virka þar sem verðbólga væri á niðurleið og umsvifin í samfélaginu hefðu minnkað. Enn væri hins vegar mikil óvissa vegna kjaraviðræðna sem stæðu yfir og eldsumbrotanna á Reykjanesi.

Kjaraviðræður breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins strönduðu á föstudag eftir að SA hafnaði forsendukröfum breiðfylkingarinnar sem tóku bæði mið af þróun megivaxta Seðlabankans og verðbólgu. Forysta SA segir þessi skilyrði óaðgengileg þar sem þau takmörkuðu sjálfstæði Seðlabankans.
Oddný G. Harðardóttir fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni tók undir með seðlabankastjóra að mikil óvissa ríkti í efnahagsmálum.
„Ef forsenduákvæði yrði sett í kjarasamninga um að stýrivextir færu ekki upp fyrir ákveðið hlutfall, myndi það vega að sjálfstæði bankans? Léti peningastefnunefnd slíkt hafa áhrif á sig við ákvörðun um stýrivexti,“ spurði Oddný.
Ásgeir sagði mjög vel skiljanlegt að sett væru forsenduákvæði í kjarasamninga til langs tíma því margt gæti breyst.

„En það væri í sjálfu sér heppilegra að það væru þá breytur sem væru raunveruleg afleiðing af kjarasamningunum. Eins og kaupmáttur og verðbólga eða eitthvað álíka. Eða hagvöxtur eins og var í síðasta samningi. Það væri heppilegt. Það er kannski svolítið sérstakt þegar tveir aðilar semja að setja inn gerðir þriðja aðilans sem ekki er aðili samningunum inn í samningana.
Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri peningamála ítrekuðu aftur á móti bæði að aðilar vinnumarkaðarins gætu samið um hvað sem er án aðkomu Seðlabankans. Bankinn væri sjálfstæður og léti kjarasamninga ekki hafa áhrif á sig við ákvörðun vaxta.