Greint er frá andláti Geirs Arnar, Geira, í viðtali við Jón K. Jacobsen, föður hans, í Heimildinni. Haft er eftir Jóni að barátta hans við kerfið við að halda syni sínum á lífi sé nú orðin barátta við að halda minningu Geirs Arnar á lofti.
Sagði betrun litla sem enga
Þeir feðgar stigu fram í viðtali á Stöð 2 tveimur dögum fyrir andlát Geirs Arnar í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kveiks um stöðuna á Stuðlum, sem sögð hefur verið hættuleg vegna álags.
Geir Örn hafði þá verið lagður sextán sinnum inn á Stuðla og sagði betrun þeirra sem fara þangað inn litla sem enga. Faðir hans kallaði úrræðið geymslu fyrir börn í vanda þar til þau verða átján ára.
Í þau sextán skipti sem Geir Örn var vistaður á Stuðlum á einu ári var hann alltaf í svokallaðri neyðarvistun. Neyðarvistun Stuðla er bráðaúrræði fyrir börn og unglinga á aldrinum 12 til 18 ára. Hámarksvistunartími er fjórtán sólahringar.
Á vef Barna og fjölskyldustofu, sem rekur Stuðla, segir að markmið neyðarvistunar sé að hafa vistunartíma ekki lengri en þörf krefur. Einungis barnaverndarnefndir hafi heimild til að vista á neyðarvistun.
Í starfsemi neyðarvistunar sé lögð áhersla á umhyggju fyrir skjólstæðingum og að tryggja öryggi þeirra. Starfsmenn neyðarvistunar leitist við að sýna vinalegt viðmót og gera vistina eins góða og aðstæður leyfa.
Engin meðferð er veitt í neyðarvistun en hún fer fram á meðferðardeild Stuðla. Stuðningsheimili Stuðla stendur þeim til boða sem hafa lokið meðferð.
Hafi ekki verið látinn vita
Í Heimildinni er haft eftir Jóni að hann hafi ekki vitað af því að Geir Örn hefði verið vistaður á Stuðlum í aðdraganda þess að hann lést, enginn hafi látið hann vita af því. Geir Örn var í neyðarvistun á Stuðlum þegar hann lést.

Jón segist hafa fengið símtal frá barnavernd snemma að morgni laugardags og honum hafi verið tjáð að alvarlegt atvik hefði orðið á Stuðlum.
„Ég spyr; af hverju ertu að hringja í mig? Geiri er ekki þar. Ég er pabbi hans og vissi ekki að hann væri á Stuðlum.“
Barnavernd ávallt látin vita
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir í samtali við Vísi að bæði Barnavernd og lögregla hafi heimild til þess að vista börn í neyðarvistun á Stuðlum. Langoftast sé það Barnavernd sem gerir það en í einstökum tilvikum lögreglan.
Barnavernd sé í öllu falli látin vita af neyðarvistun og hún sjái um að tilkynna forráðamönnum um vistun. Að öðru leyti kveðst Ólöf Ásta ekki mega tjá sig um einstök mál.