Tilefni tilkynningar embættisins er nýleg samfélagsumræðu þar sem þau segja ýmsum rangfærslum haldið á lofti en í janúar hefur í aðsendum greinum á Vísi til dæmis verið fjalla um til dæmis rannsóknir á mettaðri fitu og kólesteróli. Sjá hér, hér og hér til dæmis.
„Að þessu tilefni vill embætti landlæknis einnig koma á framfæri að ráðleggingar embættisins um mataræði sem gefnar hafa verið út hér á landi byggja á bestu vísindalegu þekkingu hvers tíma. Von er á nýjum ráðleggingum frá embættinu innan fárra vikna og hafa þær nú þegar verið kynntar fyrir ýmsum hagaðilum,“ segir í tilkynningunni.
Byggja á Norrænum næringarráðleggingum
Þessar nýju ráðleggingar byggja samkvæmt tilkynningunni á Norrænum næringarráðleggingum sem komu út árið 2023 og taka jafnframt mið af mataræði landsmanna. Nýjustu upplýsingum um mataræði fullorðinna var safnað á árunum 2019-2021.
„Norrænu ráðleggingarnar voru unnar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar af sérfræðingahópi með fulltrúum frá heilbrigðis- og matvælayfirvöldum frá öllum Norðurlöndunum. Vinnan við þær var umfangsmikil og stóð yfir í fimm ár. Um 400 sérfræðingar á Norðurlöndunum rýndu kerfisbundið yfirlit vísindagreina og skrifuðu kafla um mismunandi næringarefni og fæðuflokka. Hver kafli var birtur til umsagnar á vefsíðu ráðlegginganna en þeir eru um 70 talsins. Ferlið var því gagnsætt og allar athugasemdir og svör birt líka. Norrænu næringarráðleggingarnar voru fyrst birtar árið 1980 og hafa því í allt verið endurskoðaðar sex sinnum á rúmum 40 árum,“ segir í tilkynningu embættisins.
Þá segir að frá því á síðasta ári hafi faghópur frá háskólasamfélaginu og viðeigandi stofnunum komið að endurskoðun íslenskra ráðlegginga um mataræði á vegum embættis landlæknis. Nú þegar sé búið að birta ný viðmið um orku- og næringarefni sem sé grunnur fyrir ráðleggingarnar um mataræði. Sambærilegar ráðleggingar hafi einnig verið birtar í Danmörku, Noregi og Finnlandi og stendur til að birta í Svíþjóð á næstu vikum.
„Eini munur milli þjóðanna liggur í mismunandi matarmenningu að því leyti að aðgengi og hefð fyrir að nota einstaka fæðutegundir getur verið mismunandi milli landa.“
Byggja á vísindalegum grunni
Embættið ítrekar að lokum að sú vandaða vinna sem er á bak við bæði Norrænu ráðleggingarnar og nýjar ráðleggingar fyrir Ísland sé byggð á sterkum vísindalegum grunni og gerð af óháðum sérfræðingum á þessu sviði.
„Ráðleggingarnar eru fyrst og fremst ætlaðar heilbrigðu fólki með það að markmiði að styðja við og efla góða heilsu til skamms og langs tíma og minnka líkur á ýmsum sjúkdómum. Einstaklingar sem glíma við heilsufarslegar áskoranir eða tiltekna sjúkdóma geta þurft sértækari ráðleggingar og stuðning við sínar matarvenjur. Þegar þörf er á slíkri aðstoð er ákjósanlegt að löggiltir næringarfræðingar eða löggiltir næringarráðgjafar veiti hana eða séu hafðir í samráði,“ segir að lokum.