Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 15. Foreldrar barna á fjórum leikskólum sem kennarar lögðu niður störf í stofnuðu málsóknarfélag og stefndu Kennarasambandi Íslands og Félagi leikskólakennara til fá úr því skorið hvort aðgerðirnar væru í raun löglegar.
Foreldrarnir gerðu einnig kröfu um viðurkenningu óskiptrar bótaskyldu KÍ og FL gagnvart félagsmönnum málsóknarfélagsins vegna miska. Félögin tvo voru sýknuð af þeirri kröfu. Í dóminum segir að rétt þyki að málskostnaður falli niður á milli aðila málsins.
Félagsdóms að skera úr um
Að sögn Gísla Guðna Hall, lögmanns Kennarasambands Íslands í málinu, var málinu vísað frá á þeim forsendum að það væri Félagsdóms að skera úr um lögmæti verkfalla, ekki héraðsdóms.
Félagsdómur er sérdómstóll sem starfar á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Hlutverk Félagsdóms er að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.
Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er ekki heimilt að flytja mál fyrir almennum dómstólum sem höfða má fyrir Félagsdómi nema Félagsdómur hafi neitað að taka málið til meðferðar.
Félagsdómur hefur komið að yfirstandandi kjaradeilu kennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Dómurinn féllst ekki á kröfur SÍS um að verkföll væru ólögmæt þar sem engin eiginleg kröfugerð lægi fyrir í deilunni.
Verkföll skella að óbreyttu á á mánudag
Formenn samninganefnda í kjaradeilu kennara og ríkis og sveitarfélaga hafa þar til klukkan eitt á laugardag til að taka afstöðu til innanhússtillögu ríkissáttasemjara, sem lögð var fram í gær. Verði tillagan ekki samþykkt munu verkföll skella á í fjölda skóla, þar á meðal leikskólunum fjórum, á mánudag.
Í fréttinni hér að neðan má sjá hvenær, hvar og hversu lengi verkföll verði í gildi náist ekki að semja fyrir mánudag.
Aðalmeðferð málsins fór fram á miðvikudag og málið fékk flýtimeðferð vegna þess skamma tíma sem til stefnu var, áður en verkföll hæfust á ný.
Fréttin hefur verið uppfærð.