Rætt var við Ragnar Þór Antonsson framreiðslumann á Vísi í dag en hann missti nýverið vinnuna þar sem hann starfaði á hóteli í Reykjavík. Hann var eini faglærði þjónninn á staðnum og sá eini sem þar missti vinnuna. Ragnar hefur í kjölfarið að eigin sögn sótt um óteljandi störf á veitingastöðum án árangurs og segist telja sveinspróf sitt í framreiðslu vera honum til trafala.
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson formaður stéttarfélagsins MATVÍS furðar sig á málinu. „Mér finnst það virkilega slæmt þegar maður les það að það sé verið að segja upp fagfólki og í rauninni eina fagfólkinu sem er í vinnu á staðnum.“
Ekki komi mikill fjöldi af slíkum málum á borði MATVÍS. Oftar en ekki sé þessu öfugt farið, það sé skortur á fagmenntuðu fólki í bransanum. Þetta hvetji engan til að sækja sér menntun í geiranum.
„Við höfum nú verið að berjast við það líka og höfum komið með tillögur að breytingu á reglugerðum veitingastaða þar sem farið er fram á það að það sé fagfólk að störfum á veitingastöðum eða fínni veitingastöðum allavega.“
Félagið hafi ekki átt erindi sem erfiði. Stjórnvöld hafi rætt um að efla iðn-og tækninám undanfarin ár en ekki sé hægt að efla námið ef ekki er fagfólk að störfum á veitingastöðum.
„Ég er ekki alveg að skilja af hverju atvinnurekendur sjá ekki hag sinn í því að vera með fagfólk í vinnu af því ég get ekki séð að það sé mikill sparnaður í því að segja upp fagfólki af því að fagfólk það yfirleitt eykur söluna og fagmennskun á stöðunum og annað slíkt, þannig maður hefði talið að það væri alltaf til bóta fyrir þá staði sem eru með fagmenn.“