Fréttir
Tveir ökufantar teknir
Tveir lögreglubílar skemmdust í gærkvöldi og nótt við að elta uppi ökufanta sem keyrðu á ofsahraða til að sleppa undan lögreglu. Báðir stefndu þeir samborgurum sínum í stórhættu.
Háskóladagurinn er í dag
Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt í Háskólabíói, Borgarleikhúsinu og húsnæði Kennaraháskólans milli klukkan ellefu og fjögur en Háskóladagurinn er í dag. Boðið er upp á fimmhundruð námsleiðir í íslenskum háskólum sem eru átta talsins. Háskólanemum hefur fjölgað um fjörutíu prósent á fimm árum og síðustu árin hafa þrjú til fjögur þúsund manns kynnt sér námið á háskóladeginum.
Íbúðaverð á hækkaði um rúm 2 prósent
Verð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um tvö komma þrjú prósent í janúar, miðað við desember, þar af hækkaði sérbýli um tvö komma tvö prósent og fjölbýli um tvö komma fjögur. Verð á íbúðum hefur sveiflast nokkuð milli mánaða undanfarið til hækkunar eða lækkunar.
Stakk lögreglu í Keflavík af
Sextán ára ökumaður var stöðvaður, grunaður um ölvunarakstur, við reglubundið eftirlit lögreglu í Keflavík um ellefuleytið í gærkvöldi. Drengurinn kom út úr bílnum en þegar hann gekk með lögreglumanni í átt að bíl lögreglunnar tók pilturinn á rás. Lögregla náði ekki að elta hann uppi en fann hann skömmu síðar.
Áhrif stefnumörkunar í loftslagsmálum á efnahag
Ný stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum getur haft mikil áhrif á efnahag landsins, að mati Samtaka atvinnulífsins. Kröfur ríkisstjórnarinnar beinast þó fyrst og fremst að atvinnulífinu en lítið er hugað að því hvað aðrir aðilar geti gert til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til að mynda, sveitarfélög, ríki og almenningur.
Bjóða kennurum launahækkun umfram samninga
Launanefnd sveitarfélaganna hefur boðið grunnskólakennurum tveggja prósenta launahækkun umfram það sem gildandi samningar þeirra við sveitarfélögin kveða á um. Kjarasamningur kennara er í gildi til maí 2008, en í samningnum var gert ráð fyrir endurskoðun á honum síðast liðið haust. Þar skyldi meðal annars tekið tillit til þróunar efnahagsmála.
Búið að opna Miklubraut
Þrír eru í haldi lögreglu vegna gruns um ofsaakstur í morgun þar sem ökumaður keyrði í gegnum grindverk við beygju á Miklubraut. Stór hluti girðingarinnar lét undan þegar bíllinn fór yfir á annan vegahelming við Lönguhlíð. Ökumaðurinn hafði keyrt utan í annan bíl í sömu akstursátt rétt áður en hann hafnaði á grindverkinu. Miklubraut var lokað um tíma til vesturs í kjölfarið.
Ökufantur í hasarleik skapar stórhættu
Lögreglan í Reykjavík handtók rétt fyrir klukkan 23 mann á tvítugsaldri eftir ofsaakstur á Sæbraut og í Breiðholti. Maðurinn skapaði stórhættu og keyrði "eins og vitleysingur" að sögn lögreglu. Sex lögreglubílar veittu honum eftirför. Lögreglan reyndi að króa manninn af, m.a. með því að keyra á bíl hans. Tveir lögreglubílar eru skemmdir eftir aðgerðina.
Sprengja í stúlknaskóla í Íran
Sprengja sprakk í stúlknaskóla í Zahedan í Íran klukkan tíu í kvöld að staðartíma. Byssumenn skutu á fólk á svæðinu eftir að sprengjan sprakk. Þetta er önnur sprengjan í bænum á þremur dögum. Ekki er vitað hvort einhver lést eða slasaðist í tilræðinu. Öryggisverðir lokuðu götum og umkringdu hús sem þeir töldu byssumennina vera í.
Ákvarðanir Bush fordæmdar
Ályktun gegn fjölgun bandaríska heraflans í Írak var samþykkt í fulltrúadeild bandaríska þingsins í dag. Ályktunin fordæmir ákvarðanir forsetans um fjölgun í heraflanum í Írak. 246 þingmenn greiddu atkvæði með ályktuninni en 182 gegn. Samþykktin neyðir Bush ekki til aðgerða, en sendir skýr skilaboð um að byrja að senda bandaríska hermenn heim frá Írak.
Nasistavín undir hamarinn
Flaska af Nasistavíni með mynd af Hitler verður boðin upp í Plymouth í Bretlandi á næstunni. Rauðvínsflaskan “Fuhrerwein” er frá árinu 1943 og markaði 54 ára afmæli Hitlers. Á miðanum á flöskunni er mynd af Hitler í hátísku jakkafötum með bindi. Annar miði á hálsinum skartar mynd af erni sem situr ofan á hakakrossinum.
Slapp úr snjóflóði á Hrafnseyrarheiði
Maður slapp úr snjóflóði á Hrafnseyrarheiði í dag. Hann var að vinna við að opna veg, sem var ófær vegna snjóþyngsla, þegar snjóflóðið féll. Manninum tókst að handmoka sig út úr tækinu og komast þannig úr flóðinu. Mikil mildi eru að snjóflóðið hreif moksturstækið ekki með sér, því snarbrött hlíð er hinum megin við veginn.
Skutu sprengjuvörpum að hersveitum í Sómalíu
Árásarmenn í Sómalíu skutu sprengjuvörpum að hersveitum stjórnarinnar og eþíópískum hermönnum í Mogadishu höfuðborg Sómalíu í dag. Engan sakaði í tilræðinu. Fjórir óbreyttir borgarar létust í röð sprenginga í borginni í gær. Árásin í dag er sú síðasta í röð árása öfgasinna í borginni.
Hefur hikstað í þrjár vikur
Bandarísk unglingsstúlka virðist hafa orðið fyrir sérlega illu umtali því undanfarnar þrjár vikur hefur hún hikstað án afláts. Stúlkan hikstar um það bil fimmtíu sinnum á mínútu og eru læknar sem hafa rannsakað hana gersamlega ráðþrota yfir þessum hamagangi.
73 prósent Reykvíkinga á einkabíl til vinnu
73 prósent Reykvíkinga aka sjálfir til vinnu eða í skóla. Aðeins fjögur prósent eru farþegar í bíl á leið til vinnu. Af sjö stórum borgum á Norðurlöndunum er langmest bílaeign íbúa í Reykjavík. Þá er fjöldi ferða í einkabíl mestur og fjöldi ekinna kílómetra. Þetta kemur fram í símakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Umhverfissvið Reykjavíkurborgar.
Enn logar í japanska hvalskipinu
Óttast er að umhverfisslys geti verið í uppsiglingu í Suður-Íshafinu eftir að eldur kom upp í japönsku hvalveiðiskipi þar í gær. Hafsvæðið er eitt hið tærasta í heiminum og þar eru einnig varpstöðvar mörgæsa. Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að koma böndum á eldinn hafa skipverjar ekki viljað þiggja hjálp frá umhverfisverndarsinnum á svæðinu.
Fiskur á meðgöngu meinhollur
Fiskneysla á meðgöngu gerir börnin bæði gáfaðri og betri í samskiptum þegar þau vaxa úr grasi. Þetta er niðurstaða könnunar sem birtist í breska læknatímaritinu Lancet í dag.
Sjö al-Kaída liðar fengu lífstíðardóm
Tyrkneskur dómstóll hefur dæmt sjö al-Kaída liða í lífstíðarfangelsi vegna sprenginganna í Istanbul árið 2003. Sextíu manns létust í sprengingunum sem var miðað að Bretum og gyðingum. Höfuðpaur sprenginganna Louai al Sakka var einn hinna dæmdu, en hann tryggði fjármagn fyrir bílasprengingarnar. Þær sprungu við tvö samkomuhús gyðinga, bresku ræðismannsskrifstofuna og útibú HSBC bankans.
CIA-mönnum stefnt fyrir rétt
Ítalskur dómari hefur stefnt 26 bandarískum mönnum fyrir rétt vegna ráns á egypskum kennimanni í Mílanó árið 2003. Flestir mannanna starfa fyrir leyniþjónustuna CIA en þeir eru sagðir hafa flutt klerkinn Osama Mustafa Hassan nauðugan í fangelsi í Egyptalandi vegna gruns um að hann tengdist hryðjuverkum.
Seðlabankinn hefur brugðist
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ættu að snúa sér að því að vinna fyrir almenning, segir Guðmundur Ólafsson lektor við Háskóla Íslands, og telur bankana ekkert muna um að bæta vaxtakjör til almennings.
Tvíburar skýring DNA gátu
Lögreglan í Shuangcheng borg í Kína var ráðþrota þegar DNA sýni leiddi í ljós að einn og sami maðurinn hafði framið glæp á tveimur stöðum á sama tíma. Rannsóknarlögreglumenn fengu tvær tilkynningar um innbrot og nauðgun frá mismunandi stöðum.
Fer fram á barnaklámrannsókn ráðstefnugesta
Borgarstjóri hefur óskað eftir að lögregla rannsaki hvort þátttakendur á klámráðstefnu kunni að vera framleiðendur barnakláms, eða annars ólögmæts klámefnis. Í yfirlýsingu segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að rannsóknin yrði til að upplýsa um ólögmæta starfsemi og gæti orðið til að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi.
Minna tap hjá Kögun
Kögun hf skilaði 983 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við tæplega 636 milljóna króna tap árið á undan. Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 3.632 milljónum króna á árinu sem er 99 prósenta hækkun frá 2005 auk þess sem rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 1.542 milljónum á árinu sem er liðleg tvöföldun á milli ára.
Kaupþing spáir 5,5% verðbólgu í mars
Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverð lækki um 0,7 prósentustig í næsta mánuði. Gangi það eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 5,5 prósent miðað við 7,4 prósent í febrúar. Deildin segir lækkun matarskatts hafa veruleg áhrif á verðbólgumælinguna en að hækkun á verði fasteigna, fatnaði og skóm muni vega á móti.
Landsbanki og Landsvirkjun í endurnýjanlegri orkuvinnslu
Landsbankinn og Landsvirkjun hafa stofnað sameiginlegt fjárfestingafélag um endurnýjanlega orkuvinnslu erlendis. Félagið heitir HydroKraft Invest en því er ætlað að fjárfesta í verkefnum á erlendis sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu, með áherslu á vatnsafl.
ESB spáir minni verðbólgu í ár
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur uppfært hagvaxtarspá fyrir evrusvæðið á þessu ári. Þá eru horfur á minni verðbólgu en reiknað var með. Joaquín Almunia , sem fer með efnahagsmál innan framkvæmdastjórnar ESB, segir að gert sé ráð fyrir 2,4 prósenta hagvexti á evrusvæðinu. Það er 0,3 prósentustigum meira en fyrri spá hljóðaði upp á.
BA og Goldman Sachs ekki í yfirtökuhugleiðingum
Breska flugfélagið British Airways og bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hafa ekki í hyggju að gera yfirtökutilboð í bandaríska flugrekstrarfélagið AMR Corporation, móðurfélag bandaríska flugfélagsins American Airlines. Gengi bréfa í FL Group, sem keypti tæpan 6 prósenta hlut í AMR undir lok síðasta árs, hækkaði mest um rúm 5 prósent í Kauphöll Íslands vegna frétta um hugsanlegt yfirtökutilboð í AMR.
Óttast þjóðarmorð
Að mati Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna er hætta á að ófriður í Afríkuríkinu Tsjad geti orðið að þjóðarmorði af svipaðri stærðargráðu og í Rúanda 1994 verði ekkert að gert.
Sonur Castros segir föður sinn á batavegi
Fidel Castro Diaz Balart, sonur Castros Kúbuleiðtoga, kveðst fullviss um að faðir sinn nái fullri heilsu innan skamms. Balart, sem er 57 ára, sagði á bókasýningu í Havana í gær að skýr teikn væru um bata hins aldna leiðtoga en hann gekkst undir erfiða skurðaðgerð í júlí síðastliðnum.