Erlent

Maltneskur viðskiptajöfur ákærður fyrir aðild að morði á blaðakonu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Yorgen Fenech var í dag ákærður fyrir aðild að morði á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia.
Yorgen Fenech var í dag ákærður fyrir aðild að morði á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia. Vísir/AP
Maltneski viðskiptamaðurinn Yorgen Fenech hefur verið ákærður í heimalandi sínu. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa átt þátt í dauða blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia, sem var myrt árið 2017.

Fenech var leiddur fyrir dómara í dag þar sem honum voru lesnar sakirnar sem hann er borinn. Hann neitar öllum ákæruliðum, en auk aðildar í morðinu er Fenech meðal annars sakaður um að vera hluti af skipulagðri glæpaklíku.

Fenech var handtekinn fyrr í þessum mánuði, þegar hann reyndi að yfirgefa Möltu á einkasnekkju sinni. Hann bauðst þá til þess að veita lögreglu upplýsingar um morðmálið í skiptum fyrir friðhelgi, en því tilboði hans var hafnað, eftir því sem fram kemur í frétt BBC af málinu.

Þrjú bíða nú réttarhalda vegna meintrar aðildar að morðinu á Caruana Galizia, en undanfarið hefur lögreglan beint stærstum hluta rannsóknarinnar að því að komast að því hver skipulagði morðið, og hvers vegna. Caruana Galizia var myrt með bílsprengju í október 2017. Hún hafði meðal annars fjallað um spillingarmál sem tengdust stjórnmálamönnum á Möltu.

Fenech er vel þekktur í heimalandi sínu og hefur gegnt stjórnarformennsku í maltneskum stórfyrirtækjum á sviði viðskipta og orkumála.

Morðmálið hefur valdið gríðarlegum skjálfta á Möltu, en ítrekað hefur verið kallað eftir því að Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, segi af sér vegna „skuggalegra tengsla“ starfsmanna hans við málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×