Fiskeldið er helsti vaxtarsproti Vestfjarða um þessar mundir en í kvíum í Önundarfirði er verið að ala regnbogasilung, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2.

Í litlu húsi yst á Flateyrarodda stofnaði ungur Flateyringur Fiskvinnsluna Hrefnu í fyrra. Hún heitir Hrefna Valdemarsdóttir og fullvinnur matvæli úr eldisfiski.
„Hérna er reykti laxinn og grafni laxinn úr Dýrafirði frá Arctic. Og svo er það regnboginn úr Önundarfirði, sem ég fæ bara beint hérna inn um dyrnar,“ segir Hrefna um leið og hún sýnir okkur vörurnar, sem eru áframvinnsla úr fiskeldinu.
Hún er einnig að þróa nýja vöru sem hún kallar laxgæti, eða sælgæti úr laxi, sem hún segir í líkingu við „beef jerky“.

Hún selur matvælin undir vörumerkinu Ísfirðingur. Starfsmennirnir eru orðnir þrír og Hrefna segir söluna ganga ágætlega.
„Það virðist vera rosalegur áhugi og salan aðeins aukist, svona miðað við ástandið í dag. Náttúrlega covid hefur áhrif á alla.
En ég myndi segja að þetta væri bara rosalega fínt í dag. Við höldum bara áfram að vinna í okkar markaðsmálum til að ná meiru,“ segir Hrefna.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.
Einnig verður rætt við Hrefnu í þættinum Um land allt á Stöð 2 annaðkvöld, mánudagskvöld, sem fjallar um Flateyri og Önundarfjörð. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: