Átök milli úkraínskra hersveita og aðskilnaðarsinna, sem hljóta stuðning Rússa, hafa nú aukist í austurhluta Úkraínu.
Hersveitir Bandaríkjanna, sem staðsettar eru í Evrópu, eru í viðbragðsstöðu vegna „aukinnar hættu“ sem stafi af Rússum á svæðinu.
Talsmaður NATO sagði í samtali við fréttastofu Reuters að Rússar gangi þvert á tilraunir til þess að draga úr spennu og átökum í austur-Úkraínu. Sendiherrar aðildarríkja NATO funduðu að sögn talsmannsins á fimmtudag til að ræða stöðuna.
„Bandamenn eru sammála um að stórtækar hernaðaraðgerðir Rússa við og í Úkraínu undanfarið séu áhyggjuefni,“ sagði hann.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, tók undir áhyggjur NATO þjóða í dag og sagði hann „heræfingar og mögulegar ögranir Rússa við landamærin klassíska rússneska leiki.“
Átök á svæðinu eru ekki ný af nálinni en átök milli Rússa og Úkraínumanna um Krímskagann hófust árið 2014. Átökum hefur hins vegar linnt á undanförnum árum en á undanförnum misserum hafa átök aukist. Þann 26. mars síðastliðinn dóu fjórir úkraínskir hermenn í átökum við aðskilnaðarsinna sem er mesta mannfallið í langan tíma.