Erlent

Tugum sakfellinga snúið vegna skáldskapar lögreglumanns

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Franco starfaði hjá lögreglunni í um tvo áratugi.
Franco starfaði hjá lögreglunni í um tvo áratugi.

Tugir dæmdra einstaklinga í New York kunna að fá mál sín endurupptekin eða útmáð eftir að upp komst að lögreglumaður laug ítrekað upp sakir á saklausa einstaklinga. Honum hefur verið sagt upp störfum og ákærður, meðal annars fyrir að bera ljúgvitni.

Joseph E. Franco framkvæmdi þúsundir handtaka á tveimur áratugum og bar vitni í fjölda dómsmála. Upp komst um óheiðarleika lögreglumannsins árið 2018, þegar skoðun öryggismyndavéla leiddi í ljós að hann laug til um hvað hann hafði séð.

Nú liggur fyrir að um 90 sakfellingar í Brooklyn verða dregnar til baka og aðrar kunna að fylgja í öðrum hverfum New York. Um er að ræða eitt viðamesta málið af þessu tagi í sögu borgarinnar.

Flesta málin tengjast fíkniefnum og er talið að stór hluti sakborninganna séu svartir og af rómönskum uppruna. Það sem vekur sérstaka athygli er að margir þeirra sem vitað er að Franco laug upp á játuðu engu að síður hinn óframda glæp, þar sem það er almennt vitað að það þýðir ekkert að mæta fyrir dómara og segjast saklaus þegar lögreglumaður segir annað.

Sagðist hafa orðið vitni að fíkniefnaviðskiptum sem áttu sér aldrei stað

Grunsemdir vöknuðu fyrst sumarið 2018 en þá var rannsókn sett af stað þegar framburður lögreglumannsins og sönnunargögn fóru ekki saman. Í einu tilviki sem rannsóknin náði til hafði Franco sagst hafa séð mann selja eiturlyf í anddyri byggingar en í ljós kom að viðskiptin áttu sér aldrei stað né fór lögreglumaðurinn inn í bygginguna yfir höfuð.

Í öðru tilviki sagðist Franco hafa séð konu selja eiturlyf í fordyri byggingar á Madison-stræti en lögreglumaðurinn reyndist ekki heldur hafa farið inn í bygginguna í því tilviki og var alltof langt frá konunni til að sjá hvað hún var að gera.

Þá sagðist hann í þriðja tilvikinu hafa séð mann selja konu kókaín en upptökur leiddu í ljós að það eina sem maðurinn vann sér til saka var að halda hurðinni opinni fyrir konuna.

Tveir af sakborningunum þremur voru enn í fangelsi þegar upp komst um Franco.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá New York Times en miðillin hefur áður greint frá því að á árunum 2015 til 2018 komust ákæruvaldið eða dómarar að þeirri niðurstöðu í að minnsta kosti 25 tilvikum að hlutar framburðar lögreglumanna væru ósannir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×