Greint er frá þessu í ítarlegri fréttaskýringu Washington Post. Í viðtalinu við Kveik, sem birt var 4. febrúar 2020, má sjá Edwards sýna fréttamönnum RÚV húsið og vísar hún þeim meðal annars inn í svefnherbergi sem hún segir vera sitt.
Þegar fréttamaður RÚV bendir á að eignin sé skráð á sölu segir Edward að hún sé nýbúin að kaupa eignina. Eignin sé ekki til sölu.
Setrið hefur hins vegar aldrei verið í eigu Edwards. Ekkja Fords, mannsins sem átti húsið, segist ekki þekkja Edwards. Þegar Washington Post sýndi ekkjunni myndefni úr fréttaskýru Kveiks svaraði hún til:
„Hún er í húsinu mínu. Hvernig komst hún inn í húsið mitt?“
Á þeim tíma sem viðtalið hjá Kveik var tekið var húsið á sölu og Edwards var löggildur fasteignasali í Virginíu. Fasteignafyrirtæki hennar var hins vegar ekki það fyrirtæki sem sá um söluna á húsinu. Edwards hefur ekki gefið kost á viðtali vegna málsins.
Ýtti undir samsæriskenninguna um „Italygate“
Í desember síðastliðnum greip Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, til ýmissa bragða í von um að snúa við niðurstöðu forsetakosninganna sem fóru fram í nóvember. Skipaði hann til dæmis starfsmannastjóra sínum, Mark Meadows, að finna sannanir um kosningasvindl Demókrata.
Í kjölfarið sendi Meadows Jeffrey Rosen, þáverandi dómsmálaráðherra, tölvupóst þar sem hann fór yfir samsæriskenningu þess efnis að ítalskt öryggisfyrirtæki hafi í samráði við leyniþjónustu Bandaríkjanna staðið að víðtæku kosningasvindli í forsetakosningunum. Samsæriskenningin hlaut yfirskriftina „Italygate.“ Fyrirtækið UEAerospace Partners, var merkt fyrir tölvupóstinum, en það er í eigu Edwards.
Það var svo í janúar sem annað fyrirtæki í eigu Edwards, Istitute for Good Governance, sendi út yfirlýsingu frá ítölskum lögmanni sem hélt því fram að tölvuþrjótur hafi játað það fyrir honum að hann hafi tekið þátt í meintu kosningasvindli.
Samkvæmt kenningunni notaði ítalska öryggisfyrirtækið, í samstarfi við bandarísku leyniþjónustuna CIA, gervitungl í eigu hersins til þess að breyta atkvæðum fyrir Trump í atkvæði fyrir Joe Biden, Bandaríkjaforseta, og sneru þannig niðurstöðu kosninganna við.