Hitamælirinn í Portland, stærstu borg Oregon-ríkis, sýndi 42,2°C síðdegis gær en það er mesti hiti sem hefur nokkru sinni mælst þar. Útlit var fyrir að það met gæti verið slegið strax í dag, að sögn AP-fréttastofunnar. Metið var um hálfri gráðu hærra en fyrra met sem var sett árið 1965 og jafnað árið 1981.
Í Seattle í nágrannaríkinu Washington mældist hitinn 38,3°C í gær en þar er heitasti júnídagur frá uppphafi mælinga þar. Það var jafnframt aðeins í fjórða skipti í sögunni sem hiti þar mældist yfir hundrað gráðum á Farenheit-kvarða. 37,8°C.
Færanlegar loftkælingareiningar og viftur hafa selst upp í verslunum, hætt var við að bólusetja fólk gegn kórónuveirunni utandyra og margar borgir komu upp stöðum þar sem fólk gat kælt sig.

Spáð er enn heitara veðri í dag og morgun og er búist við að mörg hitamet falli þá í landshlutanum. Hitinn er víða hátt í sautján stigum á selsíus yfir meðaltali eða jafnvel enn meira.
Slíkur hiti getur verið mannskæður á svæði þar sem fólk er vant mildara loftslagi og margir eru ekki með loftkælingu. Veðurstofa Bandaríkjanna varaði fólk á svæði við því að dvelja lengi utandyra og brýndi fyrir því að drekka nægan vökva og huga að viðkvæmum ættingum eða nágrönnum sínum.
Heilbrigðisyfirvöld í Oregon afnámu fjöldatakmörk vegna kórónuveirufaraldursins á stórum samkomustöðum með loftkælingu, þar á meðal í kvikmyndahúsum og verslunarmiðstöðvum svo að fólk hefði athvarf frá hitanum úti. Í Washington voru sömuleiðis engar fjöldatakmarkanir á sérstökum kælistöðvum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Hiti og þurrkur skapaði aðstæður fyrir fordæmalausa skógar- og gróðurelda í norðvesturríkjunum í fyrra. Erfitt er að tengja einstaka hitabylgjur við loftslagsbreytingar af völdum manna nema með greiningu eftir á en skæðari hitabylgjur og ákafari þurrkur er á meðal þeirra afleiðinga hnattrænnar hlýnunar sem búist er við.
„Við vitum það af vísbendingum um allan heim að loftslagsbreytingar auka tíðni, ákafa og lengd hitabylgna. Við verðum að venjast þessu í framtíðinni,“ segir Kristie Ebi, prófessor í loftslags- og lýðheilsmálum við Háskólann í Washington, við AP.