Tíundi áratugurinn einkenndist af deilum um yfirráðasvæði milli ríkjanna. Árið 1994 skrifuðu ríkin, auk Bretlands og Bandaríkjanna, undir samkomulag um að rússneskum kjarnorkuvopnum, sem enn voru í Úkraínu, yrði skilað til Rússa og að ríkin viðurkenndu sjálfstæði, fullveldi og landamæri Úkraínu.
Árið 1997 skrifuðu Rússar og Úkraínumenn svo undir vináttusamning sem fól í sér viðurkenningu ríkjanna tveggja á yfirráðasvæðum hvers annars meðal annars. Sá samningur rann út árið 2019 en Úkraínumenn vildu ekki endurnýja hann þar sem rússneskir hermenn voru á úkraínskri grundu.
Árið 2013 fór spennan milli Úkraínumanna og Rússa að magnast að nýju þegar Viktor Janúkóvitsj, þáverandi forseti Úkraínu, hafnaði samningi um að Úkraína gengi í Evrópusambandið.
Varaði við að Úkraína myndi klofna ef hún þyrfti að velja milli Rússlands og ESB
Rússar voru mjög á móti inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið og stóðu þétt við bakið á Janúkóvitsj. Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði á sínum tíma að Úkraína myndi klofna ef þjóðin yrði látin velja milli samstarfs við Evrópusambandið eða Rússlands.
Eftir riftun samningsins hófust fjöldamótmæli á götum Úkraínu, sem öryggissveitir Jaknúkóvitsj svöruðu af hörku, með þeim afleiðingum að ríkisstjórnin hröklaðist frá völdum og Janúkóvitsj forseti flúði til Rússlands. Í mars 2014 réðust Rússar inn á Krímskaga í Úkraínu og síðar sama ár náðu aðskilnaðarsinnar stjórn á hluta Austur-Úkraínu, með aðstoð Rússa.
Á undanförnum árum hafa Úkraínumenn fjarlægst Rússa meira og meira, lagt aukna áherslu á lýðræðið og frekar viljað samstarf við Evrópusambandið en Rússa. Þá hefur hernaðarviðvera Bandaríkjanna í Úkraínu bætt gráu ofan á svart og Rússar litið á það sem útrás Atlantshafsbandalagsins til Austurs, sem Rússland telur mikla ógn við sig.
Frá því í apríl í fyrra hefur Rússland haft stöðuga hernaðarviðveru við landamærin að Úkraínu og þegar leið á árið varð rússneska hersins vart á landamærum Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Ástandið var þó nokkuð stöðugt, svona framan af, en nú í byrjun árs fór ástandið að versna.
Nú á mánudag lýsti Pútín yfir viðurkenningu á sjálfstæði úkraínsku héraðanna Luhansk og Donetsk og að friðargæsluliðar á vegum rússneska hersins yrðu sendir inn í héruðin. Á þriðjudag boðuðu fjöldi ríkja til refsiaðgerða gegn Rússum en á aðfaranótt fimmtudags hófst allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu.