Jens Geerst var með fyrstu spurninguna fyrir systurnar og vinnur hjá OutTV sem er hinsegin fjölmiðill. Jens er trans og þakkaði þeim innilega fyrir að vekja athygli á mikilvægu málefni. Í kjölfarið spurði Jens hvort það væri ástæða á bak við það að þær vildu vekja athygli á málefnum trans fólks.
Sigga svaraði og sagði ástæðuna meðal annars að hún sé sjálf foreldri trans barns. Þegar barnið hennar kom út sem trans segist hún í kjölfarið hafa áttað sig á fáfræði og fordómum hjá mörgum og sagði að þær vildu með þessum sýnileika og skilaboðum hvetja foreldra til að elska börnin sín skilyrðislaust og reyna að koma í veg fyrir fáfræði og fordóma.
Danskur fjölmiðlamaður spurði Systur út í lagið, sem hafði ekki verið verið ofarlega í veðbönkum, út í einstaka íslenska hljóðið og hvort þetta hefði komið þeim á óvart. Sigga svaraði að lög þurfi ekki alltaf að vera risastór. Ísland sjálft sé til dæmis lítið og þær hafi náð með sanni að vera samkvæmar sjálfum sér í þessu atriði. Skilaboð lagsins séu mikilvægasti fókusinn og Systur vilji veita fólki von. Fólki sem sé til dæmis ekki frjálst, eins og fólk í Úkraínu.
„Við ættum öll að standa saman og við megum ekki láta fjölmiðla normalísera stríðið.“
Systur drógu upp úr skálinni að þær verða í seinni hluta lokakvölds Eurovision á laugardag.

Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Dóra Júlía Agnarsdóttir eru fulltrúar fréttastofunnar á Eurovision í Tórínó á Ítalíu. Munu þær birta fréttir, viðtöl, hlaðvörp og auðvitað líka reglulega þætti af Júrógarðinum.
Alla umfjöllun okkar um Eurovision keppnina má finna HÉR á Lífinu á Vísi.