Síðustu misseri hefur hvert málið á fætur öðru komið í kastljós fjölmiðla þar sem ung börn hafa verið beitt ofbeldi í skólakerfinu með einum eða öðrum hætti. Í síðustu viku heyrðum við af enn einu málinu þar sem leikskólakennari var ákærður fyrir að beita börn ofbeldi. Samtökin Heimili og skóli fá reglulega slík mál inn á borð til sín.
Bryndís Jónsdóttir sérfræðingur í forvörnum hjá Heimili og skóla segir að á hverju ári komi upp tilvik þar sem grunnskólabörn eru beitt ofbeldi af hálfu starfsfólks. Því miður komi þó ekki öll slík mál inn á borð samtakanna því mörg hver komi aldrei upp á yfirborðið.
„Málin snúast þá að einhvers konar andlegu ofbeldi eða niðrandi framkomu starfsmanna í garð barna í skólum. Það hafa jafnvel komið upp mál þar sem líkamsburðum hefur verið beitt til að taka á börnum með einhvers konar hegðunarvandamál. Það er jafnframt of algengt að skólar hafa ekki tekið nógu vel á eineltismálum. Þá eru t.d. börnin sem hafa orðið fyrir einelti komin út í horn og þau þurfa jafnvel að skipta um bekk eða skóla í stað þess að þolandinn sé færður til. Þá eru skólar oft meira með viðbragðsáætlanir í stað þess að einblína á forvarnir. Ég veit ekki hverju er um að kenna en þetta þarf að laga,“ segir Bryndís.
Vill fá starfshóp um aðbúnað barna
Alma Björk Ástþórsdóttir varaformaður Heimilis og skóla segir skorta úrræði í skólakerfinu þegar slík mál koma upp.
„Okkur finnst ekki nógu vel tekið á þessu og okkur finnst ekki nógu vel hlustað á það sem er að koma upp.Við myndum vilja kalla eftir því að það yrði settur á fót óháðan starfshóp til að mynda á vegum dómstólasýslunnartil að skoða aðbúnað barna í skólakerfinu. Það vantar alla yfirsýn í málaflokknum,“ segir Alma.
Alma segir að læra þurfi af fortíðinni. Hún vísar þar til rannsóknarnefnda um vistheimili sem voru stofnaðar í kringum 2007 eftir að Breiðavíkurmálið svokallaða kom upp. Ef eftirlit og opinber stefna hefði verið virkari á sínum tíma í málefnum vistheimila hefði mögulega mátt koma í veg fyrir það að svo mörg börn yrðu fyrir skaða. Það sama eigi við í dag.
„Ef við höldum svona áfram er ég hrædd um að eftir tíu til tuttugu ár þurfum við að fara að greiða mörgum börnum sanngirnisbætur. Börn sem urðu fyrir ofbeldi, vanrækslu eða vanvirðingu og einelti í skólanum. Þá fyrir að hafa ekki tekist á við slík mál sem samfélag. Þá verða ráðamenn í framtíðinni afar hneykslaðir að þetta hafi fengið að viðgangast án þess að nokkur hafi gripið í taumanna. Þannig að ég bið ráðafólk núna að grípa inn í. Því þessi börn eru núna að verða fyrir þessu,“ segir Alma.
Bryndís segir enn fremur að grunnskólar þurfi meiri stuðning til að fást við þessi mál.
„Ef kennarnir og skólastjórnendur fá nægilegan stuðning í því sem þeir eru að gera ættum við að geta séð betri tíma framundan,“ segir Bryndís.
Stöð 2 hefur ákveðið að gera þætti þar sem fjallað verður um vistheimili á Íslandi. Þáttagerðin er hafin, þegar er verið að skoða sögu Vöggustofanna við höldum svo áfram eftir því sem fram vindur. Þeir sem hafa sögu að segja og vilja koma upplýsingum á framfæri um vistheimili, vinsamlega sendið okkur á netfangið vistheimili@stod2.is.